Fréttir

Fjallaskíðanámskeið

Fjallaskíðanámskeið,1 dagur2 námskeið  27 og 28 febrúar. Mæting í Mörkinni kl 08:00 Einn dagur á fjöllum þar sem að farið er yfir grunn þætti fjallaskíðamennsku s.s mat á snjóflóðahættu, snjóflóðaleit, uppsetningu á öruggri leið og almenna vetrarfjallamennsku. Þetta örnámskeið er ætlað sem verkleg kynning á sportinu og fer fram í nágrenni borgarinnar þar sem aðstæður eru bestar á þeim tímapunkti. Fjallaskíða og öryggisbúnaður fæst leigður á staðnum fyrir þá sem ekki eiga. Verð: 15.000.- Utan búnaðar 

Fjallaskíðamennska í samstarfi við Jökul Bergmann

Kynningarkvöld um fjallaskíðamennsku Í samstarfi við Íslenska Alpaklúbbinn: 25 Febrúar kl 20:00 Jökull Bergmann sýnir magnaðar myndir og videó þar sem fjallaskíðamennska er í aðalhlutverki,ásamt því sem fólki gefst tækifæri til að skoða allan þann sérhæfða búnað sem fylgir sportinu og fá ráðleggingar frá eina faglærða fjallaleiðsögumanni landsins. Spennandi tækifæri til þess að kynna sér þetta magnaða sport.  Allur ágóði rennur í viðgerðasjóð vegna endurbóta á Bratta, skála Íslenska Alpaklúbbsins í Botnsúlum sem er kjörin áfangastaður fjallaskíðafólks á suð vestur horninu.Verð: 500.- eða frjáls framlög

Aðsóknarmet á myndakvöldi

Myndakvöld FÍ með Helga Björnssyni jöklafræðingi og Þóru Ellen Þórhallsdóttur líffræðingi sló aðsóknarmet vetrarins en 250 gestir mættu til að hlýða á erindi hjónanna og myndasýningar. Gestir fræddust um eðli jökla, íhuguðu hvort fæddur myndi sá Íslendingur sem fengi að sigla inn í Esjufjöll eftir Breiðamerkurfirði og sátu andaktugir undir fyrirlestri Þóru Ellenar um verðmæti íslensks landslag, sérstöðu þess og ýmsar rannsóknir því tengdar. Hinar sívinsælu kaffiveitingar voru á sínum stað. Sigurvegari í ljósmyndasamkeppni FÍ tók á móti verðlaunum og menn hittu gamla ferðafélaga, treystu vinaböndin og skiptust á skoðunum og fréttum úr heimi fjallaferða og útivistar.

Leyndarmál jökla og fegurð landslags á næsta myndakvöldi

Næsta myndakvöld Ferðafélagsins verður haldið miðvikudaginn 17. febrúar í sal Ferðafélagsins í Mörkinni 6 og hefst kl. 20.00 að vanda. Myndakvöldið er að þessu sinni í umsjá hjónanna Helga Björnssonar jöklafræðings  og Þóru Ellenar Þórhallsdóttur líffræðings.  Páll Ásgeir Ásgeirsson umsjónarmaður myndakvölda FÍ segir afar ánægjulegt að  bjóða upp á myndakvöld með þeim hjónum sem hvort fyrir sig er á meðal fremstu vísindamanna þjóðarinnar á sínu sviði.

Niðurstaða dómnefndar í ljósmyndasamkeppni FÍ

Nú hefur dómnefnd skilað inn niðurstöðu í ljósmyndasamkeppni FÍ sem haldin var fyrir áramót.  Vinningsmyndin var tekin í Langadal í Þórsmörk og ljósmyndarinn er Ármann Guðjónsson.  Í texta ljósmyndara með myndinni segir:, ,, Mynd tekin við bústað skálavarða í Langadal 23. ágúst, lítill sætur yrðlingur hvílir sig í sólinni," Í niðurstöðuorðum dómnefndar segir:  "Dómnefnd þótti myndin hafa til að bera það þrennt sem hæfir góðri náttúrumynd; sterka mynduppbyggingu, fallega birtu og hún er tekin á réttu augnabliki. Þá leiðir grunnur fókus (dýptarskerpa) myndarinnar augu áhorfandans beint í auga dýrsins og skapar þannig umsvifalaust tengingu við viðfangsefnið. Þá er tófan táknmynd náttúru Íslands sem eina villta spendýrið á landinu."

Til hamingju Ísland að ég fæddist hér

Nú hefur skapast sú hefð hjá gönguhópum Eitt fjall á viku að syngja eitt lag eða tvö í hverri göngu.  Austurbæingar tóku lagið í tvígang á leið sinni á tind Skálafells.  Fyrra lagið var sérútgáfa af laginu ,,Til hamingju Ísland að ég fæddist hér,,  og var bætt við textann,  eitt fjall á viku, alltaf með þér.  Þegar upp var komið var heldur tekið að blása eins og oft er á Skálafelli og var þá sungið Yfir kaldan eyðisand, einn um nótt ég sveima.  Síðan var haldið niður á leið með byr undir báða vængi. 

Pönnukökur og kleinur á Móskarðshnúkum

Galvaskur hópur Nágranna (stundum nefndir þorparar), einn af þremur hópum FÍ í Eitt fjall á viku,  gengu á Móskarðshnúka í dag og skiptist þar á skin og skafrenningur. Nágrannar telja rúmlega 60 þátttakendur í Eitt fjall á viku og eru eins og nafnið á hópnum gefur til kynna íbúar í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og reyndar víðar því að einn þátttakandi kemur alla leið frá Vík í Mýrdal í hverja fjallgöngu einu sinni í viku.  Eftir ýmis konar sprell og skemmtilegheit stýrt af hinum glaðbeittu fararstjórum Nágranna var hópurinn hinn brosmildasti á austurtindi Móskarðshnúka. Kökunefnd hafði síðan hrært í nokkra skammta af kleinum og pönnukökum og var þeim raðað í sig af bestu lyst þegar niður var komið. Sjá myndir í myndabanka FÍ 

FÍ Í FJALLINU

Þrír hópar Eitt fjall á viku skunduðu á fjöll í dag. Nágrannar gengu á Móskarðshnúka, Austurbær á Skálafell og Vesturbær á Húsfell, alls um 140 göngugarpar. Nágrannar fögnuðu göngu á Móskarðshnúka með pönnukökum og kleinum þegar niður var komið og Austurbæingar gerðu tilraun til að skrifa FÍ í Skálafell að tillögu elsta göngugarpsins Elínborgar Kristinsdóttur. Alls eru tæplega 170 þátttakendur í verkefninu og nú er fyrstu 6 fjallgöngunum lokið og aðeins 46 fjöll eftir.  Göngudagarnir færast nú yfir á laugardagsmorgna kl. 9 og verða 6 gönguferðir á laugardögum og þá verður skipt yfir á miðvikudaga. Fyrir utan pönnukökubakstur og kleinugerð stefnir hópurinn nú að einum sameiginlegum danstíma í Ferðafélagssalnum og ýmislegt fleira skemmtilegt er í bígerð. Sjá myndir í myndabanka FÍ  

Ferðafélagar, útivistarunnendur og fjallagarpar boðnir á sýningu í World Class Laugum

Laugardaginn 13. febrúar kl. 14 – 17 býður World Class í Laugum í samstarfi við Ferðafélag Íslands upp á sýningu á skiltum sem Ferðafélag Íslands hefur sett upp á vinsælustu gönguleiðum landsins, Laugveginum og Fimmvörðuhálsi og auk þess á Hvannadalshnúk. Sjá skilti

FÍ fjör í Esjunni næstu mánuði

Ferðafélag Íslands býður upp á FÍ fjör í Esjunni næstu mánuði.  Um er að ræða ókeypis gönguferðir með fararstjórn á Esjuna, nokkrar ferðir í mánuði fram á sumar.  FÍ fjör er því tilvalinn vettvangur fyrir ferðafélaga sem eru að undirbúa verkefni sumarins, hvort heldur krefjandi fjallgöngu á Hvannadalshnúk eða sumarleyfisferð.  FÍ fjör verður undir nokkrum fyrirsögnum  eftir mánuði og er fyrsta FÍ fjör prógrammið undir heitinu ,,vertu til er vorið kallar á þig," í tilefni af veðurblíðunni undanfarið.  Fararstjóri er Þórður Ingi Marelsson.