Fréttir

Ferðaáætlun FÍ 2010 komin út

Ferðaáætlun FÍ 2010 er nú komin út og má finna allar ferðir sumarsins í áætluninni og hér á heimasíðunni. ,,Hressilegar áskoranir," segir formaður ferðanefndar FÍ. Áætlunin má skoða hér >> 

Ferðaáætlun FÍ 2010 í prentsmiðju

Ferðaáætlun FÍ 2010 er nú í prentsmiðju og kemur til dreifingar til félagsmanna í lok vikunnar.  Ferðaáætlunin er full af áhugaverðum ferðum, dagsferðum, helgarferðum og sumarleyfisferðum, auk skíðaferða og námskeiða af ýmsu tagi. Um leið og ferðaáætlunin kemur út, eða frá og með föstudeginum 29. janúar verður byrjað að bóka í ferðir.  Ný heimasíða FÍ opnar í dag og verða þar allar ferðir í áæltuninni og pdf skjal af Ferðaáæltuninni.

156 göngugarpar á Mosfell í roki og rigningu.

Myndir úr eiit fjall á viku - Mosfell eru nú komnar á myndabanka FÍ. Tæplega 160 þátttakendur tóku þátt í gönguferðinni í dag í rigningu og sudda og sást lítið til næstu fjalla af tindi Mosfells.

Nýársglaðningur FÍ til félagsmanna

Ferðafélag Íslands hefur náð hagstæðum samningum við Cintamani og býður nú öllum félagsmönnum sínum glæsilega Cintamani peysu úr techno - strechts með merki FÍ og íslenska fánanum í saumað á kr. 10.000 en söluvirði slíkrar peysu úr verslun er kr. 22.000.  Aðeins er um einn lit að velja, sérstakan Ferðafélagslit, fallega blár. Félagsmenn geta pantað peysu á skrifstofu félagsins fyrir 10. febrúar.  Hægt er að máta peysur á skrifstofunni Mörkinni 6 og skoða litinn á peysunni.

Eitt fjall á viku, Mosfell, sunnudaginn 24. janúar

Gengið verður á Mosfell sunnudaginn 24. janúar kl. 11. Mæting er við Mosfellskirkju. Þeir sem vilja sameinast í bíla leggja af stað frá Mörkinni 6 kl. 10.30.  Nú er skráningu lokið í verkefnið og alls hafa um 200 manns skráð sig.  Annar undirbúningsfundur verkefnisins verður haldinn fimmtudaginn 28. jan kl. 20. Þar verður farið frekar yfir dagskrá ársins, hópaskiptingu, afhendar möppur til þátttakenda sem og stigið á stokk og heitið um að ganga á fjöllin 52 strengt.  Allur hópurinn gengur á Mosfell. Sjá myndir frá Úlfarfelli og Helgafelli á myndabanka FÍ  

Stofnun áhugamannafélags um jarðfræði

Hugmyndin er að hittast nokkrum sinnum á ári, ýmist á fræðslufyrirlestrum eða í vettvangsferðum, og leita til sérfræðinga um að koma með innlegg, allt eftir áhuga og/eða aðstæðum hverju sinni, t.d. ef einhverjir þeir atburðir verða sem kalla á að um þá sé fjallað. Við viljum að yfirbyggingin verði sem allra minnst og reglur félagsins einfaldar í sniðum, svo jafnvel verði hægt að komast hjá því að leggja á félagsgjöld og halda utanum slík leiðindi. Þetta á bara að vera gaman.

Húsfyllir á myndakvöldi

Um 150 manns mættu á myndakvöld Ferðafélags Íslands á miðvikudagskvöld. Þar voru sýndar myndir úr skíðaferðum um fjöll og jökla að vetrarlagi. Einar Ragnar Sigurðsson sýndi myndir úr ferðum um Laugaveginn á skíðum og ferð þvert yfir Vatnajökul sumarið 1997. Páll Ásgeir Ásgeirsson sýndi myndir úr skíðaferðum um Síðuafrétt og inn í Öskju veturna 2008 og 2009. Fjöldi gesta endurspeglar mikinn áhuga á ferðum af þessu tagi og nokkrar umræður urðu um búnað og skipulag í ferðum af þessu tagi.

Myndakvöld - Í heimi frosts og fanna

Næsta myndakvöld Ferðafélags Íslands verður tileinkað vetrarferðum á skíðum og er haldið undir yfirskriftinni: Í heimi frosts og fanna Myndakvöldið fer fram miðvikudagskvöldið 20 jan. n.k. og verður að vanda haldið í sal Ferðafélagsins í Mörkinni 6 og hefst kl. 20.00. Í hléi eru kaffiveitingar með bakkelsi samkvæmt hefð. Aðgangseyrir er á sannkölluðu kreppuverði eða aðeins 600 krónur á mann. Fyrrihluti myndasýningarinnar er í umsjá Einars Ragnars Sigurðssonar. Einar er reyndur fjallamaður sem hefur stundað skíðaferðir um hálendi Íslands í áratugi. Hann er verðlaunaður ljósmyndari en myndir hans hafa unnið til verðlauna í alþjóðlegum og íslenskum samkeppnum. Einar sýnir myndir úr gönguskíðaferðum yfir Vatnajökul, í Landmannalaugar og um Fjallabak, Torfajökul og Laugaveginn. Seinnihluti myndasýningarinnar er í umsjá Páls Ásgeirs Ásgeirssonar sem sýnir myndir úr gönguskíðaferðum í Öskju og um Síðuaafrétt veturna 2008 og 2009. Páll Ásgeir hefur ferðast um íslensk fjöll í áratugi, skrifað leiðsögubækur og er einn af fararstjórum FÍ auk þess að sitja í stjórn félagsins.

Eitt fjall á viku - Úlfarsfell - myndir

Tæplega 150 göngugarpar tóku þátt í gönguferð FÍ í morgun á Úlfarsfell í verkefninu ,, Eitt fjall á viku."  Myndir úr gönguferðinni eru komnar á myndabanka FÍ hér á heimasíðunni, sjá hér 

Borgaraganga Hornstrandafara FÍ

Árleg BORGARGANGA Hornstrandafara Ferðafélags Íslands verður sunnudaginn 17. janúar 2010. Mæting kl 10:30 við innganginn í sal F. Í., Mörkinni 6. Að lokinni kynningu aka þátttakendur á eigin bílum að upphafsstað göngu, sem er miðsvæðis í Reykjavík.