Fréttir

Fjölmennt á Heiðarhorni

25 manna hópur á vegum Ferðafélags Íslands gekk á Heiðarhorn á Skarðsheiði laugardaginn 7. nóvember. Ákvörðun um þessa ferð var tekin í skyndingu tveim dögum áður þegar veðurspá leit sérlega vel út. Þeir sem gripu tækifærið urðu ekki fyrir vonbrigðum því veður var stillt, kalt og heiðskírt  en vægur norðan andvari á efsta tindi. Útsýni af Heiðarhorni er geysilega gott og sér vítt yfir fjöll við Faxaflóa, Borgarfjörð, Snæfellsnes og inn til jökla. Sjá nánar í myndasafni FÍ.

Gengið á Skarðsheiði á laugardag

N.k. laugardag 7. nóvember efnir Ferðafélag Íslands til fjallgöngu á Skarðsheiði, nánar tiltekið er stefnan tekin á Heiðarhorn sem er hæsti tindurinn á Skarðsheiðinni. Spáð er hægri norðanátt á laugardag og því góðar líkur á óviðjafnanlegu útsýni af Heiðarhorninu. Gengið verður á fjallið upp með Skarðsá en farið niður af fjallinu aðra leið og gengið um svokallaða Skessubrunna. Heiðarhornið er 1055 metra hátt og gönguleiðin er um 10 km. löng. Farið verður með rútu frá Mörkinni 6 að uppgöngustað og er brottför kl. 10.00 á laugardagsmorgun. Fararstjórar eru: Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir. Verð kr. 2000 fyrir félagsmenn en 4000 kr. f aðra.

Gjald innheimt á ferðamannastöðum?

Unnur Halldórsdóttir, nýkjörinn formaður Ferðamálasamtaka Íslands sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að gjaldtaka af gestum á vinsælum ferðamannastöðum væri óhjákvæmileg innan fárra ára. Hægt er að hlusta á viðtalið við Unni hér. Unnur taldi í sama viðtali líklegt að fjöldi erlendra ferðamanna á Íslandi næði einni milljón árlega innan skamms tíma. Hún taldi rétt að hefja opinskáa umræðu um það hvernig gjaldtöku af þessu tagi yrði best háttað til þess að sem best sátt næðist um málið innan ferðaþjónustunnar.

Sunnudagsskýrsla gangenda

Sunnudaginn 1. nóvember mættu átta gangendur (sem eiga ekkert skylt við fuglategundina endur) á Vegginn við Mörkina 6. Eftir stutt ráðslag var ákveðið að halda upp í mynni Þrengslanna og ganga þaðan á Lambafell. Bílum var lagt við einhverjar malargryfjur og haldið á brattann. Eftir eðlilegan klifurtíma var tindi náð og útsýni notið til allra átta. En síðan stefnt til suðurs eftir fellinu endilöngu. Á þeirri leið var fyrra kaffið drukkið og ekki völ á öðru en gera það í sól og blíðu. Eftir smástopp á suðurenda fellsins sturtuðum við okkur niður brattar skriður og gengum síðan til norðurs með fellinu og að bílunum. Hluti hópsins gekk hélt síðan að Litla-Reykjafelli og gekk á það eins og ekkert væri. Í hlíðum þess var seinna kaffið drukkið og útsýnis notið til vesturs. Gangan á Lambafell og umhverfi var um 9 km. löng og tók 3 klst. og 45 mín. Hér má sjá myndir.

Læst í Landmannalaugum

Skálavörður í Landmannalaugum er kominn til byggða og skálinn nú læstur. Vilji ferðalangar komast þar í húsaskjól þarf að hafa samband við skrifstofu Ferðafélags Íslands í síma 568-2533 til þess að fá lykil. Gæsla hefst ekki í skálanum aftur fyrr en á nýju ári.

Gönguferðir alla sunnudaga hjá FÍ kl. 10.30

Veðrið var með eindæmum gott og eru orð Halldórs Laxness úr Heimsljósi best fallin til að lýsa ástandinu á Vífilsfelli á sunnudaginn þar sem Snæfellsnesið og jökulinn bar við himin í ljósi sólarinnar. Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.

Teigsskógi í Þorskafirði þyrmt

Samkvæmt nýgengnum dómi Hæstaréttar verður ekki lagður nýr vegur gegnum Teigsskóg við utanverðan Þorskafjörð. Þeir sem börðust fyrir friðun skógarins kærðu úrskurð umhverfisráðherra sem heimilaði vegalögn gegnum skóginn en nú hefur dómur fellt úr gildi úrskurð ráðherrans. Fyrir ferðamenn og náttúruunnendur þýðir þetta að Teigsskógur verður áfram sú lítt snortna náttúruparadís sem hann hefur verið hingað til.

Vatnið hreyfir jöklana

Haustfundur Jöklarannsóknarfélagsins verður haldinn þriðjudaginn 20.október í sal 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands og hefst kl. 20.00. Á fundinum flytur Eyjólfur Magnússon jarðeðlisfræðingur erindi undir yfirskriftinni: "Áhrif vatns á hreyfingu jökla rannsökuð með gervitunglum." Skýrt verður frá áhrifum jökulhlaupa á hreyfingar jökla, hvernig jökullinn bregst við stórrigningum og hvernig lekinn úr Grímsvötnum í kjölfar stóra jökulhlaupsins 1996 breytti ísflæði Skeiðarárjökuls. Að loknu kaffihléi sýnir Brynjar Gunnarsson myndir úr vorferð Jöklarannsóknarfélagsins 2008 en þær eru hluti af meistaraverkefni hans í blaðaljósmyndun.

Ljósmyndasamkeppni FÍ

Ferðafélag Íslands efnir til ljósmyndasamkeppni sem er öllum opin. Hver keppandi skal senda eigi fleiri en þrjár myndir á netfangið: fi@fi.is Skilafrestur ljósmynda er til 1.des. 2009 og keppt er í tveimur flokkum. Í öðrum flokknum er leitað eftir myndum sem teknar eru í ferðum á vegum Ferðafélags Íslands en í hinum flokknum geta verið ljósmyndir almenns eðlis en þær skulu sendar á sama netfang innan sömu tímamarka. Niðurstöður í samkeppninni verða kynntar 22. des 2009 en dómnefnd verður skipuð fagmönnum í fremstu röð á sviði ljósmyndunar. Sigurvegarar fá vegleg verðlaun sem eru stafræn myndavél frá Nikon og sumarleyfisferð með Ferðafélagi Íslands að eigin vali fyrir tvo.

Örnefni í Vestmannaeyjum

Fræðslufundur verður haldinn í Nafnfræðifélaginu laugardaginn 24. október nk., kl. 13, í Öskju, húsi Háskóla Íslands, stofu N 130. Guðjón Ármann Eyjólfsson  fyrrv. skólameistari Stýrimannaskólans í Reykjavík flytur fyrirlestur um örnefni í Vestmannaeyjum, landsheiti, jarðfræði og fiskimið, og sérstaklega um hverja eyju með myndum úr Árbók Ferðafélags Íslands 2009, Vestmannaeyjar, sem kom út um miðjan júní sl. vor. Guðjón Ármann er aðalhöfundur Árbókarinnar, en auk hans rita jarðfræðingarnir Ingvar A. Sigurðsson og dr. Sveinn P. Jakobsson um jarðsögu Vestmannaeyja og Jóhann Óli Hilmarsson um fuglalíf í Vestmannaeyjum. Ritstjóri var Jón Viðar Sigurðsson jarðfræðingur.