Fréttir

Torfajökull í efsta sæti

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lokið umfangsmiklum rannsóknum á náttúrufari og verndargildi háhitasvæða á Íslandi. Niðurstöðurnar eru nú aðgengilegar almenningi á vef Náttúrufræðistofnunar. Skemmst er frá því að segja á á lista yfir tíu verðmætustu háhitasvæði landsins er Torfajökulssvæðið í efsta sæti en það er talið einstætt í sinni röð í heiminum. Þess má geta að næsta árbók Ferðafélags Íslands fjallar um Torfajökulssvæðið og er höfundur hennar Ólafur Örn Haraldsson núverandi forseti félagsins.

Málþing um náttúruvernd

Föstudaginn 20. nóvember verður haldið málþing um náttúruvernd í Rúgbrauðsgerðinni í Borgartúni 6. Það er Umhverfisstofnun sem heldur málþingið sem ber yfirskriftina: Jarðfræðileg fjölbreytni og landslag: verndargildi og sérstaða Íslands. Fjöldi áhugaverðra erinda er á dagskrá málþingsins sem hefst kl. 13:00. Má nefna sem dæmi að Þóra Ellen Þórhallsdóttir heldur erindi um verndargildi landslags og Sigmundur Einarsson jarðfræðingur fjallar um verndargildi jarðhitasvæða. Þóra Ellen er vinsæll fararstjóri í ferðum FÍ í Þjórsárver. Einnig er forvitnilegt erindi Ara Trausta Guðmundssonar um verndargildi eldstöðva og eldstöðvakerfa og Kristján Jónasson og Sveinn Jakobsson fjalla um fágætar steindir og berg á Íslandi. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Húsfyllir á myndakvöldi

Húsfyllir varð á myndakvöldi Ferðafélags Íslands í gærkvöldi og voru 150 manns mættir til að fylgjast með sýningunni. Haraldur Örn Ólafsson og Guðmundur Jónsson (Gummi stóri) sýndu myndir af háfjallagöngum á Hvannadalshnúk, Hrútfjallstinda, Þverártindsegg og Miðfellstind svo nöfn nokkurra fjallarisa sem komu við sögu séu nefnd. Ljóst er að áhugi á fjallgöngum á brött fjöll er vaxandi í takt við vinsældir Hvannadalshnúks og var reglulega gaman að sjá næstum allan salinn rétta upp hönd þegar spurt var hverjir ætluðu sér að ganga á Þverártindsegg.

Mætum á myndakvöld

Í kvöld miðvikudag 18. nóvember er myndakvöld í sal Ferðafélagsins kl. 20.00. Það ber yfirskriftina: Sjáðu tindinn, þarna fór ég. Þar sýna Haraldur Örn Ólafsson og Guðmundur Jónsson ljósmyndir sem þeir hafa tekið í göngum á nokkur hæstu og tignarlegustu fjöll á Íslandi. Hvannadalshnúkur, Hrútfjallstindar, Þverártindsegg og margir fleiri tindar verða í aðalhlutverkí á þessu fróðlega og skemmtilega myndakvöldi. Kaffiveitingar í hléi.

Sunnudagur við Lögberg

Göngugleði FÍ sem starfar á sunnudagsmorgnum stefndi að Lögbergi s.l. sunnudag. Þar var gengið um nágrenni Nátthagavatns og Elliðakots. Alls tók gangan tvo og hálfan tíma og sex kílómetrar lagðir að baki.

Myndir úr ferðum sumarsins

Verið er að setja inn myndir úr ýmsum ferðum FÍ á liðnu sumri í myndasafn heimasíðunnar. Hægt er að skoða myndir af Óeiginlega Laugaveginum hér og hér. Þessar eru úr fossagöngu um Djúpárdal og hér og hér úr Strandagöngu. Þetta eru aðeins nokkur dæmi úr fjölbreyttu myndasafni Ferðafélags Íslands sem vex jafnt og þétt. Þeir sem eiga myndasöfn úr skemmtilegum Ferðafélagsferðum vistuð á netinu ættu að senda slóðirnar á lysandi@internet.is og þá mun tengill verða settur inn á heimasíðu FÍ.

Sjáðu tindinn, þarna fór ég

Næsta myndakvöld Ferðafélags Íslands verður tileinkað háum fjöllum og haldið undir yfirskriftinni: Sjáðu tindinn, þarna fór ég. Myndakvöldið fer fram miðvikudagskvöldið 18. nóvember n.k. og verður að vanda haldið í sal Ferðafélagsins í Mörkinni 6 og hefst kl. 20.00. Í hléi eru kaffiveitingar með bakkelsi samkvæmt hefð. Fyrrihluti myndasýningarinnar er í umsjá Guðmundar Jónssonar sem stundum er kallaður Gummi stóri. Guðmundur er í hópi reyndra fjallamanna þrátt fyrir ungan aldur og hefur getið sér gott orð sem fararstjóri fyrir Ferðafélagið í göngum á há fjöll. Guðmundur sýnir myndir úr ferðum á Hrútfjallstinda og Þverártindsegg og einhver fleiri fjöll sem freista brattgengra. Seinni hluti sýningarinnar er í umsjá Haraldar Arnar Ólafssonar sem sýnir myndir úr göngum á Hvannadalshnúk eftir ýmsum leiðum og fleiri tinda í öskju Öræfajökuls. Haraldur er reyndasti fjallamaður Íslands fyrr og síðar og stjórnar göngum á Hvannadalshnúk á hverju vori fyrir Ferðafélag Íslands.

Valgarður Egilsson heiðraður

10. nóv, var haldið sérstakt málþing til heiðurs Valgarði Egilssyni prófessor. Málþingið er á vegum Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði og þar verða haldin erindi um krabbameinsrannsóknir og frumulíffræði en á því sviði hefur starfsvettvangur Valgarðs verið um langan aldur. Þótt ótrúlegt megi virðast er sjötugsafmæli Valgarðs skammt undan. Á vettvangi Ferðafélags Íslands er Valgarður þekktur fyrir þindarleysi á göngu, magnaða og litríka fararstjórn og ötult félagsstarf. Ferðir undir leiðsögn Valgarðs um nyrstu byggðir milli Eyjafjarðar og Skjálfanda, Hvanndali og Héðinsfjörð eru þjóðsagnakennd ævintýri sem færri komast í en vilja. Ferðafélag Íslands árnar Valgarði allra heilla og treystir á liðsinni hans og krafta í framtíðinni.

Fjölmennt á Heiðarhorni

25 manna hópur á vegum Ferðafélags Íslands gekk á Heiðarhorn á Skarðsheiði laugardaginn 7. nóvember. Ákvörðun um þessa ferð var tekin í skyndingu tveim dögum áður þegar veðurspá leit sérlega vel út. Þeir sem gripu tækifærið urðu ekki fyrir vonbrigðum því veður var stillt, kalt og heiðskírt  en vægur norðan andvari á efsta tindi. Útsýni af Heiðarhorni er geysilega gott og sér vítt yfir fjöll við Faxaflóa, Borgarfjörð, Snæfellsnes og inn til jökla. Sjá nánar í myndasafni FÍ.

Gengið á Skarðsheiði á laugardag

N.k. laugardag 7. nóvember efnir Ferðafélag Íslands til fjallgöngu á Skarðsheiði, nánar tiltekið er stefnan tekin á Heiðarhorn sem er hæsti tindurinn á Skarðsheiðinni. Spáð er hægri norðanátt á laugardag og því góðar líkur á óviðjafnanlegu útsýni af Heiðarhorninu. Gengið verður á fjallið upp með Skarðsá en farið niður af fjallinu aðra leið og gengið um svokallaða Skessubrunna. Heiðarhornið er 1055 metra hátt og gönguleiðin er um 10 km. löng. Farið verður með rútu frá Mörkinni 6 að uppgöngustað og er brottför kl. 10.00 á laugardagsmorgun. Fararstjórar eru: Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir. Verð kr. 2000 fyrir félagsmenn en 4000 kr. f aðra.