Fréttir

Sundmannakláði í Landmannalaugum

Nokkuð hefur borið á svokölluðum sundmannakláða meðal baðgesta í Landmannalaugum seinnihluta sumars og í haust. Sundmannakláði eru kláðabólur sem sundlirfur fuglasníkjudýra valda eftir að hafa smogið gegnum húð manna. Bólurnar geta valdið talsverðum kláða og myndað litlar blöðrur. Ekki er vitað til þess að þessi sníkjudýr valdi mönnum skaða en þau geta lifað í líkama spendýra í daga eða vikur. Mest ber á þessum sníkjudýrum seinnihluta sumars og fram eftir september en eftir það dregur úr áreiti þeirra. Rétt er því að ferðalangar sem hyggja á baðferðir í Landmannalaugum viti af þessu og fari í lækinn á eigin ábyrgð.

Haustganga Hornstrandafara um helgina

N.k. laugardag verður farin árleg haustganga Hornstrandafara Ferðafélags Íslands. Þetta eru gönguferðir með árshátíðarívafi og að þessu sinni verður gengið umhverfis Hrómundartind á Ölkelduhálsi. Þar er fjölbreytt landslag með hverasvæðum og mun án efa koma mörgum á óvart. Þaðan liggur leiðin í Sundlaug Selfoss og loknu þrifabaði halda ferðalangar hreinir og stroknir í Básinn í Ölfusi þar sem verða fjölbreytt hátíðahöld fram eftir kvöldi en á eftir stiginn dans við undirleik Breiðbandsins. Veðurspá helgarinnar gerir ráð fyrir hægri norðanátt sem er hagstæð og í dag 29. sept. rennur út frestur til að tilkynna þátttöku á skrifstofu Ferðafélags Íslands. Látið ekki happ úr hendi sleppa.

Afmæli Laugavegarins

19. september var þess minnst að 30 ár voru liðin frá fyrstu skipulögðu göngu Ferðafélags Íslands um Laugaveginn milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Afmælisgangan fór þannig fram að ekið var frá Reykjavík að morgni laugardags inn á Emstrur og gengið frá Emstruskála niður í Langadal í Þórsmörk. Þessi leið er síðasta dagleið hins hefðbundna Laugavegar. Farþegar í afmælisferðinni hrepptu sérlega fallegt veður og Kristján M. Baldursson fararstjóri sagði í samtali við heimasíðu FÍ að fegurð fjalla og jökla og logandi haustlitir hefðu heillað alla sem sáu.

Tindfjallaskáli kominn aftur heim

Tindfjallaskáli er kominn á sinn stað á ný efst í Tindfjöllum eftir snöfurlega endurbyggingu sem fór fram síðastliðið ár á plani við Kirkjusand í Reykjavík. Skálinn á sér merka og langa sögu en félagið Fjallamenn sem upphaflega reisti hann var stofnað 1939, fyrir réttum 70 árum. Skálinn hefur verið í umsjá Íslenska alpaklúbbsins frá 1979 eða í rétt 30 ár. Því fer vel á því á þessi tímamót skuli marka glæsilega endurbyggingu skálans.

Skálum lokað á Laugaveginum

Þessa dagana er verið að loka skálum Ferðafélags Íslands í Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Hvanngili og Emstrum. Þessir skálar hafa verið þéttsetnir glöðum ferðalöngum frá því snemma í vor enda áfangastaðir á hinum sívinsæla Laugavegi. Þeir ferðalangar sem hyggjast eiga víst húsaskjól í þessum skálum verða því að hafa samband við skrifstofu FÍ í Mörkinni 6 og fá þar lykla að skálunum. Skrifstofan er komin á vetrartíma og opnar því ekki fyrr en kl. 12.00 og síminn þar er 568-2533. Áfram verður opið um sinn í Langadal í Þórsmörk og í Landmannalaugum og þar verða skálaverðir.

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs 40 ára

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs fagnar 40 ára afmæli sínu laugardaginn 19. september n.k. Þessara tímamóta verður minnst með vígslu nýs skála í Loðmundarfirði. Vígslan sem jafnframt er afmælisveisla hefst kl. 14.00. Ferðafélag Íslands óskar félaginu innilega til hamingju með áfangann en fulltrúar FÍ munu sækja afmælisbarnið heim á þessum merku tímamótum.

Skrifstofan opnar kl. 12

Frá og með 15. september opnar skrifstofa Ferðafélagsins kl 12 og er opin til kl. 17.

Dregið í Esjuhappdrætti FÍ og Visa

Nú hefur verið dregið í Esjuhappdrætti FÍ og Visa.  Alls um 22.000 þátttakendur skráðu nöfn sín og netfang í gestabækurnar og hafa verið dregnir út 8 vinningshafar en 2 verða dregnir út úr gestabók á Þverfellshorni sem enn er í póstkassanum.  Nöfn vinningshafa eru:  Íris Fjóla Bjarnadóttir, Elva Dís Hlynsdóttir, Andrea Guðjónsdóttir, Kjartan Benediksson, Einar Njálsson, Óskar Ólafsson, Jóhannes Jónsson og Harpa Sveinsdóttir,  Vinningshöfum hefur verið sendur tölvupóstur og þeir boðaðir á skrifstofu Ferðafélagsins.

Metþátttaka í gönguferðum á Esjuna

Ferðafélag Íslands hefur nú safnað saman öllum gestabókum i Esjuhappdrætti FÍ og VÍSA í sumar.  Metþátttaka hefur verið í gönguferðum i Esjunnni í sumar en um 22.000 manns hafa skráð nöfn sín í gestabækur Ferðafélagsins á Þverfellshorni og við Steininn og samkvæmt tölum FÍ er það um 90% aukning frá fyrra ári þegar um 12.000 manns skráðu nafn sitt í gestabækurnar.

Allt á floti í Þórsmörk

Ferðalangur á göngubrúnni yfir Krossá. Mikill vöxtur hefur verið í vötnum í Þórsmörk og á Þórsmerkurleið undanfarna viku. Krossá og Steinholtsá hafa á köflum verið ófærar og Hvanná mjög grafin og straumhörð og ill viðureignar. Elva Dögg skálavörður í Langadal sagði í samtali við heimasíðu FÍ að árnar væru þokkalega færar stórum bílum eins og sakir standa.