Fréttir

Gönguleiðir upp úr botni Hvalfjarðar

Í sumar kom út fræðsluritið Gönguleiðir upp úr botni Hvalfjarðar. Leifur Þorsteinsson skrifar um gönguleiðir á svæðinu en auk þess er að finna í ritinu fjölmargar myndir og kort.  Fræðsluitið fæst á skrifstofu FÍ og kostar kr. 1900.

Framkvæmdir í Norðurfirði

Nú er nýlokið framkvæmdum í skála FÍ í Norðurfirði á Ströndum þar sem unnið var að lagfæringum og endurbótum á hlöðunni sem mun nýtast fyrir dagsferðar hópa sem og sem gistipláss. Fóstrahópur skálans undir styrkri stjórn Jóhönnu Gestsdóttur endurnýjaði allt gólf í hlöðunni og má sjá myndir úr vinnuferðinni á myndasíðu FÍ.  Umferð hefur verið mikil í skálann í Norðurfirði í sumar og hefur skálavörðurinn Áslaug Halla Guðmundsdóttir staðið vaktina af mikilli samviskusemi en hún er elsti skálavörður FÍ 78 ára gömul en sjaldan verið sprækari.  Sjá myndir

Síldarmannagöngur - dagsferð

Skemmtileg dagsferð með FÍ eftir Síldarmannagötum, forn Þjóðleið þegar farið var í síldargöngur yfir Botnsheiði.  Leifur Þorsteinsson höfundur fræðslurits FÍ sem kom út í sumar um gönguleiðir í botni Hvalfjarðar er fararstjóri í gönguferðinni.

Myndir úr sumarleyfisferðum

Nú er að finna myndir úr sumarleyfisferðum FÍ á myndasíðunni hér á heimasíðu FÍ.  Myndir úr sumarleyfisferðum eru að berast skrifstofu FÍ og eru settar í myndabankann.  Ferðafélagið leitar eftir áhugasömum félagsmönnum til að setjast í myndanefnd FÍ sem hefur umsjón með myndakvöldum FÍ í vetur. Áhugasamir hafi samband við framkvæmdastjóra FÍ.

Laugavegurinn, síðasta ferð sumarsins

Þann 30 ágúst verður lagt upp í síðustu ferð sumarsins á Laugaveginn.  Gönguleiðin er bæði falleg og fjölbreytt. María Dögg Tryggvadóttir verður fararstjóri að þessu sinni en hún þekkir svæðið mjög vel. Gengnar verða 4 dagleiðir og endað er með fjörugri grillveislu í Þórsmörk. Haldið er heim eftir morgunleikfimi á 5. degi. Skráning er á skrifstofu FÍ  

Myndir úr sumarleyfisferðum FÍ

Nýjar myndir úr sumarleyfisferðum FI er nú að finna á myndasíðu FÍ hér á heimasíðunni. Þátttakendur í ferðum sumarsins eru hvattir til að senda skrifstofu FÍ myndir úr ferðum.

Myndir úr Fossagöngu

Nú má sjá nýjar myndir úr Fossagöngu FÍ á myndasíðu FÍ.  Sæmundur Alfreðsson þátttakandi í ferðinni kom við á skrifstofu FÍ með þessar fallegu myndir. Sjá myndir

Síldarmannagöngur - dagsferð

Ferðafélagið býður upp á spennandi ferð nk sunnudag eftir Síldarmannagöngum. Leifur Þorsteinsson er fararstjóri.

Síðsumarsferð bíladeildar FÍ

Um næstu helgi er síðsumarsferð bíladeildar FÍ. 24. ágúst - föstudag - ekið síðdegis í Borgarnes og gist þar - eða farið þeim mun fyrr af stað úr bænum á laugardagsmorgninum. 25. ágúst - laugardag - Ekið um Borgarnes kl. 09. Farnar úrleiðir að fjöllum og vötnum - nema Langavatni - og fram til sjávar - m.a. að Löngufjörum. Miðað við að ljúka suðurströndinni af og komast norður fyrir og austur undir Grundarfjörð eða jafnvel í Stykkishólm. 26. ágúst - sunnudag - Snemma af stað. Áfram fylgt úrleiðum. Þegar kemur að Heydal skiptist hópurinn og Heydalinn fari fólksbílar en jeppar áfram til Laugardals og um Sópandaskarð að Langavatni og heim um Borgarnes. Sjá nánar á heimasíðu fararstjóra, www.gopfrettir.net

Fossaganga á Gnúpverjaafrétti

Um helgina verða fossar Þjórsár skoðaðir í þessari bráðskemmtilegu helgarferð.  Þar ber helst að nefna Kjálkaversfoss, Dynk og Gljúfurleirarfoss að auki verður gegnið á Ófærutanga og Geldingartanga.