Fréttir

Krossá komin heim

Krossá er nú komin heim í Langadal eftir að hafa farið villur vega um Krossáraura í vetur.  Unnið hefur verið að því í vikunni að breyta árfarvegi Krossár og beina henni að ný undir göngubrúnna neðan við Langadal en þann farveg yfirgaf áin í vetur og þar með stóð brúin munaðarlaus eftir.  Ferðamenn eru nú mættir í Þórsmörk og göngumenn voru í vandræðum með að komast yfir Krossá.  

Langisjór - FÍ og Landvernd

Ferðafélagið og Landvernd standa saman að áhugaverðri ferð í Langasjó 24. júní. Þátttakendur koma á eigin vegum í Hólaskjól þann 23. júní, þar sem gist er. Lagt verður af stað í ferðina frá Hólaskjóli kl. 8 að morgni sunnudags.  Boðið er upp á fræðslufund í Reykjavík á föstudegi í Mörkinni 6 kl. 19.30.

Skálavarðanámskeið - vinnuferð í Landmannalaguar

Ferðafélagið stóð fyrir skálavarðanámskeiði  31. maí - 3. júní fyrir skálaverði félagsins í sumar.  Á námskeiðinu var farið yfir allt það helsta sem tengist starfi skálavarðar og endaði námskeiðið með vinnuferð í Landmannalaugar þar sem tekið var til hendinni.  Sjá myndir

Árbókarferð FÍ

Undir leiðsögn ritstjóra árbókar F.Í. 2007 verður lagt af stað í árbókarferð um Austur Húnavatnssýslu frá Mörkinni 6 kl 9 á laugardagsmorgni og haldið norður í land. Boðið verður upp á sambland af rútu og gönguferð, þar sem gert er ráð fyrir að hluti hópsins geti sleppt göngu.

Dagsferð um Þjórsárdal og Heklusvæðið

Dagsferð um  Þjórsárdal, Landsveit og Heklusvæðið í samstarfi við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Þarna var blómleg byggð á fyrstu öldum Íslands byggðar, sem nú er löngu horfin.  Á þessum ,,hring" er margt áhugavert að sjá sem tengist sögu þessarar byggðar og mannlífs, en einnig sögu jarðelda, uppblásturs og eyðingar.  Þarna hefur verið unnið mikið starf við að stöðva gróðureyðingu og endurheimta lággróður og skóg. Í lok ferðar verður komið við í Gunnarsholti þar sem boðið verður upp á veitingar.  Í för verða sérfræðingar á þessum sviðum og áhersla lögð á að varpa "nýju ljósi" á þessi svæði fyrir hinn almenna ferðamann.  Fararstjórar Sveinn Runólfsson og Hreinn Óskarsson.  Sjá nánar undir ferðir.  

Esjudagurinn færður í jónsmessunótt

Esjudagur FÍ og SPRON sem vera átti 10. júni hefur nú verður færður til 23. júní og verður dagskrá í Esjuhlíðum á kvöldi laugardags og mun miðnætursólin, jónsmessan, álfasöngur og dans og miðnæturstemming ráða ríkjum í dagskránni.  Boðið verður upp á kvöldgöngur, skógargöngur og Esjuhlaup, leiðsögn og fræðslu um jarðfærði, landnám og fleira fróðlegt sem tengist Esjunni. 

Esjuhappdrætti FÍ og SPRON hefst í dag

Ferðafélag Íslands, SPRON og Íslensku alparnir standa fyrir Esjuhappdrætti FÍ og SPRON nú þriðja sumarið í röð. Allir sem skrifa nafn sitt og netfang í gestabók sem geymd er í útsýnisskífu FÍ á Þverfellshorni lenda í potti sem dregið er úr vikulega. Vinningshafi hlýtur veglega gönguskó frá Íslensku ölpunum í verðlaun.

Fréttapóstur frá FÍ 30. maí

Fréttapóstur frá FÍ 30. maí.

Myndir af Hvannadalshnjúk um sl. helgi

Ferð FÍ á Hvannadalshnjúk um Hvítasunnuna gekk vel. Allir þátttakendur komust á toppinn. Þátttakendur eru hvattir til að senda myndir úr ferðinni á fi@fi.is og verða þær settar á heimasíðu FÍ.  Sjá myndir

Myndir frá Drangajökli

Ferð FÍ yfir Drangajökul í Reykjarfjörð og Hrafnfjörð gekk vel.  Einmuna veðurblíða lék við göngumenn alla daga.  Hægt er að sjá myndir úr ferðinni og ferðasaga er væntanleg.