Fréttir

Strönd og Vogar, Vatnsleysuströnd

Nafnfræðifélagið í samstarfi við FÍ efnir til gönguferðar um Strönd og Voga þriðjudaginn 15. maí nk. Ætlunin er að aka að Halakoti á Vatnsleysuströnd á eigin bílum, og er mæting þar kl. 20.  Gengið verður í Bieringstanga og fengin leiðsögn þar hjá Magnúsi Ágústssyni í Halakoti. Síðan er haldið áfram í Voga og Grænaborg  skoðuð í leiðinni og álagasaga bæjarins sögð.

Morgunganga í Viðey - myndir

Síðasta morgunganga FÍ þessa vikuna var í morgun þegar gengið var um Viðey. Veðrið var að venju sérlega gott og 24 þátttakendur nutu þess að ganga um eyjuna í morgunbirtunni. Í lok göngu var 10 þátttakakendum veitt verðlaun frá FÍ fyrir að hafa mætt í allar morgungöngurnar 5 í þessari árlegu morgungangnaviku FÍ. Sjá myndir úr Viðey

Morgungöngur - myndir, Helgufoss og Keilir

Gengið var á Keili í morgungöngu FÍ snemma morguns.  Veður var stillt. Gangan á topp Keilis tók 1.07 klst, þar af 40 mín í hrauninu að Keili.  Veitt voru verðlaun fyrir ýmsar góðar hugmyndir. Sjá myndir úr ferðinni sem og morgungöngu að Helgufossi í gærmorgun.

Menningarsjóður VISA styrkir Ferðafélag Íslands

Stjórn Menningarsjóðs VISA úthlutar nú 9 styrkjum, samtals að fjárhæð 14 milljónir króna. Þetta er í ellefta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum og hafa 79 styrkir verið veittir frá upphafi, flestir til menningarmála en nokkrir til vísinda-, mannúðar- og líknarmála. Stjórn sjóðsins ákvað að í ár skyldi verulegum hluta styrkfjárhæðarinnar varið til menningar-, líknar-og velferðarmála. Menningarsjóður Visa styrkti Ferðafélag Íslands um 3.5 milljónir króna og verða þær nýttar til merkinga, skiltagerðar og aukinnar upplýsingagjafar við skála Ferðafélagsins á Laugaveginum.

Morgungöngur FÍ - Keilir á morgun

Gengið verður á Keili á morgun fimmtudag í morgungöngum FÍ. Lagt verður af stað frá Mörkinni 6 kl. 6.  Í morgun gengu 28 þátttakendur að Helgufossi í Mosfellsdal.  Á föstudaginn verður siglt í Viðey og gengið þar á hæsta hól.  Þátttaka er ókeypis, allir velkomnir.

Vífilsfell í einmuna blíðu - Grímannsfell á morgun

Gengið var á Vífilsfell í morgun á öðrum degi morgungangna FÍ. Lagt var af stað frá Mörkinni kl. 6, komið á toppinn 7.33 og niður að bílum aftur um hálfníu. Þátttakendur voru 47 og nutu einmuna veðurblíðu og útsýnis.  Á toppnum var að venju úthlutað gjöfum og vakti athygli að engin kannaðist við það hafa hátt afmæli í háa herrans tíð. Yngsti þátttakandi var 24 ára og sá elsti 73.  Á morgun verður gengið á Grímannsfell sem stendur ofan við Gljúfrastein í Mosfellsdal.  Sjá myndir frá því í morgun.  

Morgunganga Fí á Helgafell

Fyrsta morgunganga FÍ af fimm þessa vikuna var í morgun þegar gengið var á Helgafell. Mættir voru 30 árrisulir og glaðbeiitir göngumenn. Lagt var af stað frá Mörkinni kl. 6 og ekið að Kaldárseli. Þar sem hann var heldur napur að þessu sinni þrátt fyrir bjart og fallegt veður, var gengið all rösklega til að fá hita í kroppinn. Sjá myndir

Myndir af Eyjafjallajökli 6. maí

Ferðafélagið stóð fyrir gönguferð á Eyjafjallajökul 6. maí. Rúmlega 20 göngumenn tóku þátt í ferðinni. Gengin var Skerjaleið, lagt upp hjá Grýtu og gengið austur eftir jökli að Goðasteini og rennt sér niður á Hamragarðaheiði. Veðrið var frábært og útsýnið einstakt.  Sjá myndir úr ferðinni.

Morgungöngur FÍ - á fjöll við fyrsta hanagal, 7. - 11. maí

Morgungöngur Ferðafélagsins hefjast mánudaginn 7. maí. Gengið verður á fjöll í nágrenni Reykjavíkur alla daga vikunnar og lagt af stað kl. 06 frá Mörkinni.  Mánudaginn 7. maí verður gengið á Helgafell, bæjarfjall Hafnfirðinga, Þriðjudaginn á Vífílsfell, miðvikudaginn á Grímannsfell, fimmtudaginn á Keili og á föstudag verður farið í Viðey og gengið þar á hæsta hól.  Þátttaka er ókeypis í morgungöngurnar allir velkomnir.

Eyfjallajökull - frestað fram á sunnudag vegna veðurspár

Ferð FÍ á Eyjafjallajökul sem fara átti á morgun laugardag 5. maí hefur verið flutt til sunnudags vegna veðurspár. Lagt verður af stað á sunnudaginn kl. 8 frá Mörkinni 6 og dagskráin öll hin sama.