Fréttir

Hvannadalshnjúkur - ferðin færð aftur á yfir á laugardagsmorgun

Ferð FÍ á Hvannadalshnjúk sem færð hafði verið fram á sunnudag, hefur nú verið færð aftur til laugardags, og verður lagt af stað í gönguna kl. 05 í fyrramálið.  Vegna nýrra upplýsinga frá Veðurstofu og breytinga á veðurspá var ferðin færð aftur yfir á laugardag.

Fréttapóstur FÍ 24. maí

Fréttapóstur frá FÍ 24. maí.

Hvannadalshnjúkur - ferðinni frestað til sunnudagsmorguns.

Ferð FÍ á Hvannadalshnjúk hefur verið frestað til sunnudags og verður gengið af stað á sunnudagsmorgni kl. 04.  Eftir að hafa skoðað vandlega verðurspár og rætt við veðurfræðinga er ljóst að útlitið fyrir sunnudaginn er mun betra en fyrir laugardaginn. Vindur verður þónokkur á laugardag en síðan lægir á sunnudagsmorgun.   Lagt verður af stað frá Sandfelli kl. 4:00 á sunnudagsmorgun.

Undirbúningsfundur fyrir Hvannadalshnjúk

Ferðafélagið stendur fyrir undirbúningsfundi miðvikudagskvöld 23. maí kl. 20 fyrir ferð FÍ á Hvannadalshnjúk um Hvítasunnuna. Haraldur Örn Ólafsson fararstjóri í ferðinni fer yfir helstu atriði, búnað, nesti, fatnað, öryggisatriði, ferðatilhögun og fleira.

Ölkelduháls með FÍ og Landvernd

FÍ og Landvernd standa saman að ferð um Ölkelduháls og Reykjadal á Hvítasunnudag, 27. maí nk. Lagt verður af stað frá Mörkinni 6 kl. 9 og að loknum fræðslufundi í hótel Eldhestum verður ekið upp á Ölkelduháls og síðan gengið suður Dalafell og niður Rjúpnabrekkur.  Freysteinn Sigurðsson heldur fyrirlestur og Björn Pálsson annast leiðsögn.

Drangajökull og Reykjafjörður um Hvítasunnuhelgina

Nokkur sæti laus í skíðaferð yfir Drangajökul um Hvítasunnuna.  Þátttakendur koma á eigin bílum að Dalbæ við Unaðsdal á föstudagskvöld þar sem gist er fyrstu nóttina.  Að morgni laugardags er lagt af stað yfir Drangajökul og gengið yfir í Reykjafjörð þar sem gist verður í tvær nætur.  Aðeins er gengið með dagpoka, vistir fluttar sjóleiðina í Reykjafjörð.  Í dag 17. maí 2007 er vetrartíð á Drangajökli.  Á hájökli er mikill nýfallinn snjór og eru horfur á að heldur bæti á næstu daga. Maí hefur verið kaldur og því er óvenjumikill snjór á leiðinni ef miðað er við síðustu ár.

Fréttapóstur FÍ 15. maí.

Fréttapóstur frá Ferðafélagi Íslands 15. maí.

Árbók FÍ 2007 komin út - Húnaþing eystra

Árbók Ferðafélags Íslands 2007 er sú áttugasta í ritröðinni en bókin hefur komið út samfellt frá árinu 1928, einstakur bókaflokkur um land og náttúru. Að þessu sinni er árbókin um Húnaþing eystra og ritar hana Jón Torfason frá Torfalæk. Jón er fróður um sögu héraðsins og hefur viðað að sér heimildum úr ýmsum áttum. Árangurinn er glæsileg bók sem ekki einungis lýsir náttúrufari og staðháttum heldur er rík af sögum og sögnum.

BANF kvikmyndasýning í Háskólabíói 15. - 16. maí

Hin árlega BANFF kvikmyndasýning verður haldin í Háskólabíói 15. og 16. maí næstkomandi. Um er að ræða stuttmyndir af afrekum og ævintýrum einstaklinga sem stunda fjallamennsku, snjóbretti, fjallahjólamennsku, klifur, kajak, base jumping og fleira. Myndirnar eru eins fjölbreyttar og þær geta verið en allar eiga það sameiginlegt að fjalla um samspil einstaklingsins við náttúruna þar sem adrenalín og góð skemmtun eru sjaldan fjarri.

FÍ og Þingvallaþjóðgarður í samstarfi

Ferðafélag Íslands og Þingvallaþjóðgarður munu á næstu vikum standa saman að gönguferðum á fjöll í Þjóðgarðinum.  Gengið verður á Ármannsfell, Arnarfell, Hrafnabjörg, Leggjarbrjót, farið í hellaskoðunarferð og endað með göngu á Skjaldbreið í tilefni af því að 200 ár eru frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar.  Ferðirnar og dagsetningar verða kynntar nánar á næstunni.