Fréttir

Fréttapóstur frá FÍ 21. maí

Hægt er að skrá sig á póstlista FÍ hér á heimasíðunni.

Árbókin í dreifingu.

Árbók Ferðafélagsins er nú í dreifingu til félagsmanna.  Félagsmenn eru beðnir að greiða árgjaldið í næsta banka eða sparisjóði og fá síðan árbókina senda heim ásamt félagsskírteini. Þeir sem þegar hafa greitt árgjaldið fá árbókina nú á næstu dögum. Frá og með morgundeginum má gera ráð fyrir 2 til 3 daga afgreiðslufresti á bókinni. Pósturinn sér um dreifingu bókarinnar fyrir FÍ og er bókin borin í hús og bankað upp á og ef engin er heima þá er skilin eftir tilkynning og skal þá nálgast bókina á næstu póststöð.

Skálaverðir til starfa í Þórsmörk

Skálaverðir eru nú mættir til starfa í Þórsmörk og að venju eru það fyrstu skálaverðirnir sem mæta til starfa í upphafi sumars. Töluvert er bókað í Skagfjörðsskála í maí og þá mest skólahópar. Skálar á Laugaveginum eru lokaðir og mælir Ferðafélagið ekki með því að einstaklingar leggi af stað Laugaveginn á þessum árstíma enda snjóa að leysa, færið þungt og víða mikil bleyta og aurbleyta.

17 tíma gönguferð á Hrútfellstinda

Ferðafélagið stóð fyrir gönguferð á Hrútfellstinda um helgina.  Alls tóku 14 þátt í göngunni sem tók rúma 17 tíma. Eftir þungbúið skyggni í upphafi ferðar var gengið upp úr skýjunum í um 1200 metra hæð og blasti þá við stórkostlegt útsýni.  Þórhallur Ólafsson fararstjóri FÍ í ferðinni var ánægður í lok ferðar og sagði að allir hefðu staðið sig mjög vel. Sjá myndir Við viljum sólskin - sjá myndskeið Útiveru úr göngunni

Ferðafélagar á faraldsfæti

Ferðafélagar ferðast í auknum mæli erlendis og mikið er úrval ferða í boði hjá ferðaskrifstofunum. Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ er fararstjóri í gönguferð með Ferðaþjónustu bænda umhverfis Mont Blanc í júlí og Sigrún Valbergsdóttir varaforseti er fararstjóri í ferð til Færeyja  með Trex í lok maí.

Fararstjórar FÍ á sprungunámskeiði

Fararstjórar hjá Ferðafélagi Íslands tóku þátt í sprungunámskeiði á dögunum hjá Jökli Bergmann. Þetta er annað árið í röð sem Jökull er með námskeið fyrir fararstjóra FÍ en hann er nýútskrifaður frá Kanada með próf í fjallaleiðsögn af hæstu gráðu.  Útivera.is er með skemmtilegt spjall við Jökul og fréttir af námskeiðinu á vef sínum www.utivera.is, þar sem er að finna nýjan veffréttavarpa. Sjá hér

Árbók FÍ 2008

Félagsmenn FÍ sem eiga eftir að greiða árgjaldið eru minntir á að greiða árgjaldið og fá þá árbókina senda heim. Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur skrifar um Úthérað ásamt Borgarfirði eystra, Víkum og Loðmundarfirði.   Hægt er að skrá sig í Ferðafélag Íslands með því að hafa samband við skrifstofuna í síma 568-2533 eða með t-pósti fi@fi.is

Myndir frá Hvannadalshnúk

Nú má sjá myndir úr ferð FÍ á Hvannadalshnúk á myndbanka FÍ

90 manns á Hvannadalshnúk um Hvítasunnuna

Um 90 manns gengu á Hvannadalshnúk með Ferðafélaginu um Hvítasunnuhelgina. Lagt var af stað í gönguna kl. sex að morgni á laugardag. Rigning var í upphafi og göngu og skyggni lítið lítið nánast alla gönguna. Þó rofaði til á leiðinni niður.  Erna Bergþóra Einarsdóttir ferðafulltrúi hjá FÍ sagði að gangan hefði gengið vel þrátt fyrir veðrið.  ,,Fyrstu menn voru tólf og háflan tíma en sá síðasti kom niður um hálfellefu í fylgd Haraldar Arnar fararstjóra,"  Alls voru 14 fararstjórar í ferðinni. Myndir úr ferðinni verða settar á myndabanka FÍ á næstunni.

Til þátttakenda í ferð á Hvannadalshnúk

Til þátttakenda í ferð á Hvannadalshnúk   Lagt verður af stað á Hvannadalshnúk kl. 6 í fyrramálið, á laugardagsmorgni. Brottför er því seinkað um tvo tíma miðað við upphaflega áætlun. Fyrri hluta göngunnar verður rigning en síðan er útlit fyrir að það lægi og létti til.