Fréttir

300 manns í morgungöngum FÍ

Um 300 manns tóku þátt í morgungöngum FÍ þetta árið og ljóst er að morgungöngurnar njóta vaxandi vinsælda og hefur þátttakan aldrei verið meiri. Á toppi Úlfarfells í morgun var hrópað ferfalt húrra fyrir þeim sem mætt höfðu í allar göngurnar fimm þetta árið og reyndust þeir vera 26 að fararstjórum meðtöldum. Sjá myndir

Gæsahúð á Úlfarsfelli - morgungöngur FÍ

Ekki var laust við hinir árrisulu göngugarpar í morgungöngum Ferðafélagsins fengu gæsahúð þegar Karlakórinn Fóstbræður söng Hærra minn Guð til þín, í rigningu og roki, efst á Úlfarsfelli eldsnemma morguns. Vel æfður kórinn, margraddaður undir stjórn Árna Harðarssonar, sögn sig inn í hjörtu göngumanna sem stóðu vindbarðir og blautir í slagvirði og hlýddu á með kakómjólk og ostaslaufu í hönd.  All súrrealískar aðstæður svo ekki verði meira sagt. 

Helgafell í morgun - Úlfarsfell í fyrramálið

Alls 53 fóthvatir morgunhanar mættu í fjórðu morgungöngu Ferðafélags Íslands að morgni fimmtudags og skunduðu upp á Helgafell í Mosfellsdal. Að þessu sinni var fenginn kunnugur heimamaður Bjarki Bjarnason sem sagði þátttakendum til vegar og fræddi þá um sögu landsins og örnefni. Sjá myndir úr göngunni í morgun.

50 morgunhanar í súld og þoku á Vífilsfelli.

Frábær þátttaka hefur verið í morgungöngum Ferðafélagsins í ár. Um 60 manns mættu fyrstu tvo morgnana og gengu á Helgafell á mánudag og Keili á þriðjudag. Í morgun var stefnt á Vífilfell þrátt fyrir að súld lægi yfir toppnum. Samtals 43 vaskir morgunhanar gerðu léttar leikfimiæfingar við rætur fjallsins og töltu svo af stað upp í þokuna. Páll Ásgeir Ásgeirsson fararstjóri í morgungöngunum sagði að veðrið í morgun hefði verið dumbungslegt og í miðju fjalli hefði skyggni verið lítið sem ekkert....., Sjá myndir

Hvannadalshnúkur um Hvítasunnu - til þátttakenda

Reiknað er með að gengið verði á Hnúkinn á laugardag en sunnudagur er varadagur. Þátttakendur verða að fylgjast með heimasíðu FÍ til hádegis á föstudag þar sem fréttir birtast af endanlegum uppgöngutíma. 

Morgungöngur - Keilir

Morgungöngur FÍ héldu áfram í morgun þegar gengið var á Keili.  Páll Ásgeir Ásgeirsson fararstjóri í morgungöngunum var hinn sprækasti í morgunsárið og stýrði morgunleikfimi af mikilli lipurð. Páll Ásgeir segist mjög ánægður með þátttökuna en um 60 manns hafa nú tekið þátt í báðum morgungöngunum.  ,,Á morgun kl. 6 leggjum við af stað í morgungöngu á Vífilsfell og það eru allir velkomnir. Það er virkilega góð tilfinning að standa á fjallstindi og horfa yfir borgina eldsnemma  morguns."Sjá myndir

Góð þátttaka í fyrstu morgungöngu FÍ

Góð þátttaka var í fyrstu morgungöngu Ferðafélagsins þetta árið. Um sextíu manns gengu á Helgafell ofan Hafnarfjarðar í ljómandi góðu veðri. Valdimar Örnólfsson stjórnaði morgunleikfimi í upphafi göngu.  Á morgun verður gengið á Keili og lagt af stað í einkabílum frá Mörkinni 6 kl. 6 og eða frá bílastæðinu á Höskuldarvöllum kl. 6.20.  Á miðvikudag er gengið á Vífilsfell, fimmtudag á Helgafell í Mosfellssveit og föstudag á Úlfarsfell. Þátttaka er ókeypis í morgungöngurnar, allir velkomnir.  Myndir úr morgungöngunum eru væntanlegar í myndabanka FÍ.  Fararstjóri í morgungöngum FÍ er Páll Ásgeir Ásgeirsson.

Eyjafjallajökull á laugardag

Ferðafélagið stendur fyrir gönguferð á Eyjafjallajökul 3. maí.  Farið er á einkabílum frá Mörkinni 6 kl. 8 á laugardagsmorgni. Gengin er Seljavallaleið og þeir sem vilja geta rennt sér niður á skíðum en búnaður er fluttur á jökulinn.  Nauðsynlegur búnaður í ferðina er öryggisbelti og ísexi, nesti og góður fatnaður, sólaráburður og sólgleraugu.

Gönguferð á Þórisjökull aflýst.

Gönguferð FÍ á Þórisjökull á morgun hefur verið aflýst vegna ófærðar á Uxahryggjaleið og í Kaldadal.  FÍ bendir á göngu- og skíðaferð á Eyjafjallajökull á laugardaginn.

Morgungöngur FÍ 5. - 9. maí

Morgungöngur Ferðafélagsins hefjast mánudaginn 5. maí.  Allla morgna þá viku ( 5. - 9. maí) verður gengið á fjall í nágrenni Reykjavíkur og lagt af stað við fyrsta hanagal eða klukkan sex að morgni. Gengið verður á Helgafell ofan Hafnarfjarðar, Keili, Vífilsfell,  Helgafell  í Mosfellssveit og Úlfarsfell. Áætlað er að hverri gönguferð ljúki um níuleytið.  Morgungöngur Ferðafélagsins hófust árið 2004 og tóku 5 þátt í fyrstu göngunni. Sl. vor tóku um 250 manns þátt í öllum fmm göngunum.  Þátttaka er ókeypis, allir velkomnir.