Árleg Jónsmessuganga FÍ á Snæfellsjökul verður farin föstudaginn 18. júní. Þátttakendur verða um 200 göngugarpar sem munu upplifa Jónsmessunótt á jöklinum. Helstu upplýsingar til þátttakenda eru: Lagt verður af stað frá Mörkinni 6 kl. 17 í rútu. Á leiðinni verður stoppað við Vegtamót á Snæfellsnesi í 30 mínútur. Síðan er ekið að Hellnum að þjónustumiðstöð þjóðgarðsins þar sem landverðir taka á móti hópnum og verða með stutta fræðslu um Snæfellsjökul og þjóðgarðinn. Síðan er ekið áfram áleiðis að Hellissandi en beygt til hægri þar sem Eysteinsdalur er merktur á skilti. Þar er ekið eins langt og leið liggur að náttúrulega gerðu bílastæði. Lagt verður verður af stað í gönguna um kl. 21.45. Gengið er í tvöfaldri/þrefaldri röð á tind Snæfellsjökuls. Á leiðinni verður ein 15 mínútna kaffipása. Á tindinum verður hópurinn um miðnætti og áætlað að koma niður á milli kl. 02 - 03. Þátttakendur þurfa ekki jöklabúnað, þe belti, brodda eða ísexi en fylgja fyrirmælum fararstjóra. Þeir sem aka á eiginbílum mæta á Hellnum kl. 20. Þátttakendur taka með sér góðan göngufatnað/hlífðarfatnað,húfu og vettlinga, bakpoka með nesti og drykk, sólgleraugu, sólarárburð ( göngustafi, myndavél, sjónauka, göngukort .... ) Fararstjórar í ferðinni eru Páll Guðmundsson og Auður Kjartansdóttir og þeim til aðstoðar verður fríður hópur fararstjóra og landvarða.