Stjórn Ferðafélags Íslands samþykkir málstefnu
05.12.2018
Stjórn Ferðafélags Íslands samþykkti í haust íslenska málstefnu, sem unnið verður eftir innan félagsins. Ólafur Örn Haraldsson, forseti FÍ, segir stöðu íslenskunnar vera áhyggjuefni og hvetur önnur félagasamtök til að leggja íslenskunni lið. „Vandað íslenskt mál hefur lengi verið í hávegum haft innan félagsins,“ segir Ólafur Örn, en Ferðafélagið var stofnað árið 1927. „Þar ber fyrst að nefna Árbók Ferðafélagsins, en úrvalslið hefur áratugum saman starfað í ritnefnd og við umsjón og frá upphafi hafa valinkunnir höfundar skrifað þessar bækur. Krafan um gæði hefur vaxið mikið og þá ekki aðeins um vandað islenskt mál og góðar ljósmyndir heldur eru nú gerðar fræðibókakröfur til útgáfunnar hvað varðar tilvísanir, heimildir og nafnaskrár.