Fréttir

Ferðafélag Íslands semur við Advania

 Ferðafélag Íslands hefur undirritað samning við Advania um innleiðingu á viðskiptalausninni ÓPUSallt. „Ferðafélagið er meðal stærstu og öflugustu félagasamtaka í landinu og ákaflega metnaðarfullt í sinni starfsemi. Við höfum átt farsælt samstarf við félagið um langt árabil og það er grundvöllurinn að þessari nýju innleiðingu á nútímalegri viðskiptalausn,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania.

Fræðsluerindi HÍN

„Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur: Minningabrot" „Í erindinu verða nefnd dæmi um rannsóknir íslenskra jökla á fyrri hluta 20. aldar, þætti Sigurðar þar í og þeim ferðamáta sem þar var viðhafður allt frá mannsfótum til vélsleða og snjóbíla. Þá verður fjallað lítilega um aðra íslenska jarðfræðinga svo sem Tómas Tryggvason og Guðmund Kjartansson, sem hófu jarðfræðinám á svipuðum tíma og Sigurður.

Vel heppnað námskeið

Þeir fjallabræður Ævar og Örvar héldu vetrarfjallamennskunámskeið fyrir FÍ 10-11 mars sl. Markmið námskeiðsins var að kenna nemendum grunnatriði í vetrarfjallamennsku.

Fjall mánaðarins í mars er Stóri-Meitill og Litli-Meitill

Þriðja ganga verkefnisins Eitt fjall á mánuði 2012 á vegum Ferðafélags Íslands verður  farin laugardaginn 24 mars. Gengið verður fyrst á Stóra-Meitil í Þrengslum sem er 514m. hátt. Fjallið er allbratt á flesta vegu, er móbergsfjall sem náð hefur uppúr jökli þegar það gaus á síðasta jökulskeiði ísaldar, enda má sjá hraun á kolli fjallsins. Fjallið er sérstakt vegna þess að þegar komið er á fjallsbrúnina blasir við stór gígur, all djúpur og víður. Einnig verður farið á Litla-Meitil. Sjá nánar >>

Fræðsluferðir FÍ og HÍ

Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands halda áfram samstarfi sínu um gönguferðir sem efnt var til í tilefni aldarafmælis skólans 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum og nú hjólaferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Ferðirnar verða fimm talsins og tekur hver um tvær klukkustundir. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Myndakvöld 21. mars

Næsta myndakvöld FÍ er miðvikudaginn 21. mars kl. 20 í sal félagsins Mörkinni 6.  Þá sýna Ferðafélag Akureyrar og  Ferðafélag austur Skaftfellinga myndir úr ferðum af sínu svæði.

Tvö ný fræðslurit á leið í prentsmiðju

Ferðafélag Íslands er umfangsmikill útgefandi á sviði náttúrulýsinga, leiðarlýsinga og ýmis konar fróðleiks er tengist útiveru og ferðamennsku.  Nú eru tvö smárit á leið í prentsmiðju og koma út innan skamms.  Annars vegar rit um gönguleiðir í Glerárdal og hins vegar rit um Fjalla Eyvind.  Þá er unnið að lokafrágangi að árbók félagsins sem í ár fjallar um Skagafjörð og er væntaleg með vorinu.

Nýtt göngukort hjá FÍ

Út er komið nýtt gönguleiðakort um gönguleiðir í Þórsmörk og Goðalandi, útgefið af Ferðafélagi Ísland og Útivist. Um er að ræða endurútgáfu af göngukorti sem fyrst kom út 2007 en hefur nú verið endurnýjað og uppfært.  Veg og vanda að göngukortinu höfðu þeir Leifur Þorsteinsson fyrir hönd FÍ og Óli Þór Hilmarsson fyrir hönd Útivistar.

Verndun Þjórsárvera

Fjörutíu ár eru nú liðin síðan barátta heimamanna í Gnúpverjahreppi fyrir verndun Þjórsárvera hófst. Þann 17. mars 1972 boðaði landgræðslunefnd Ungmennafélags Gnúpverja til almenns sveitarfundar um Þjórsárver og þá ógn sem steðjaði að þeim vegna hugmynda um risastórt miðlunarlón sem hefði sökkt verunum. Í tilefni þessa boða Vinir Þjórsárvera, Áhugahópur um verndun Þjórsárvera, Landvernd, og Náttúruverndarsamtök Íslands til fundar í félagsheimilinu Árnesi til að minnast þessa merka fundar. Skyggnst verður inn í tíðaranda á fyrri hluta áttunda áratugarins í Gnúpverjahreppi, litið yfir farinn veg og horft til framtíðar.

Aðalfundur

Aðalfundur Ferðafélags Íslands verður haldinn fimmtudaginn 22. mars kl. 20 í sal FÍ Mörkinni 6. Hefðbundin aðalfundarstörfStjórnin.