Ef þú ert Íslendingur og leggur að auki einhverja stund á fjallgöngur þá er einboðið að Hvannadalshnúkur sé á verkefnalistanum og það jafnvel oftar en einu sinni, því nær himninum verður ekki komist hér á landi, alls 2.110 metra yfir sjávarmál.
Með réttum undirbúningi og góðri leiðsögn er ganga á Hvannadalshnúk næsta auðveld hverjum fullfrískum manni, jafnt þindarlausum unglingum sem úthaldsgóðum öldungum. Gangan sem slík er ekkert sérstaklega erfið og krefst engrar sérkunnáttu eða tækni. Erfiðleiki göngunnar felst fyrst og fremst í því að þetta er afar löng fjallganga eða 12-15 klst, eftir því hvernig færið er á jöklinum sjálfum.
Í Öræfum er að finna yfir 90 tinda hærri en þúsund metrar og hægt er að gleyma sér í fjallaskoðun hvert sem litið er. Skriðjöklar Öræfajökuls hafa hopað gríðarmikið á síðustu árum og sífellt kemur nýtt landslag í ljós undan jökli. Þannig geta jafnvel þeir sem gengið hafa á Hnúkinn áður uppgötvað ný og óséð jöklasker og hamraveggi. Virkisjökulsleiðin sem fyrir áratug var oftast gengin upp á topp er nú illfær og því er farin svokölluð Sandfellsleið, sem reyndar er sú leið sem helst var farin fyrr á öldum.
Lagt er af stað við eyðibýlið Sandfell sem var í miðju hamfaranna í tvö síðustu skiptin sem Öræfajökull gaus, þ.e. árin 1362 og 1727. Þarna iðar hver þúfa af sögu sem gaman er að rifja upp á þeirri löngu göngu sem framundan er. Leiðin liggur upp brattar hlíðar Sandfellsins, upp á Sandfellsheiðina og þaðan að jökulröndinni í um 1.100 metra hæð þar sem hópnum er skipt upp í átta manna göngulínur.
Á göngunni opnast smám saman útsýni að baki göngufólks yfir Ingólfshöfða, svartan Skeiðarársand og fjöllin hinum megin sands með Lómagnúp í forgrunni. Eftir sjöhundruð metra hækkun í viðbót er komið upp á brún Öræfajökulsöskjunnar og hinn fyrirheitni Hvannadalshnúkur blasir við, auk allra hinna öskjutindanna svo sem Sveinstinds og Snæbreiðar. Nú tekur við ganga yfir öskjuna sjálfa, skammt frá vestari öskjubrúninni, fyrir ofan hina hrikalegu skriðjökla Falljökul og Virkisjökul. Framundan blasir Hnúkurinn við og hinn ægifagri Dyrhamar.
Við rætur Hvannadalshnúks þarf að setja á sig göngubrodda og draga fram ísöxina og svo tekur við snörp tvöhundruð metra hækkun upp á sjálfan toppinn. Þegar upp er komið gleymast allar raunir göngunnar löngu, því útsýnið er engu líkt og hæðin er slík að sjóndeildarhringurinn fær bogadregna víðlinsu-ásýnd, svipað og myndir sem teknar eru utan úr geimnum!
Því hefur verið haldið fram að ganga á Hvannadalshnúk sé lengsta dagleið á fjöllum í gervallri Evrópu og víst er rétt að óvíða erlendis tíðkast það að taka tvö þúsund metra hækkun á einum degi. Gangan reynir ekki síður á andlegt úthald þátttakenda en líkamlegt því göngumenn eru stóran hluta leiðarinnar fastir í línu, einir með sjálfum sér og sínum hugsunum. Hægt er að fullyrða að sú andlega næring og innhverfa íhugun sem út úr því fæst jafnist á við vikudvöl á indversku jógasetri.
Hver sá sem sigrar Hvannadalshnúk hefur ekki aðeins gengið á hæsta fjall Íslands, heldur líka stærsta eldfjall landsins og það fjórða stærsta í Evrópu. Menn eru fullsæmdir af því afreki og geta með réttu gortað sig á mannamótum um ókomna tíð.