Fréttir

Gosstöðvaferðir á Fimmvörðuháls á morgun 21. apríl

Dagsferð í Þórsmörk og Goðaland til að skoða ummerki gossins á Fimmvörðuhálsi. Brottför frá Mörkinni 6 kl. 8 og komið að Strákagili um kl. 11. Þaðan er lagt af stað upp Kattarhryggi og Morinsheiði að Magna og Móða. Áætlað er að koma til baka niður að rútu um kl. 16. Komið til Reykjavíkur að kvöldi. Fararstjóri: Bjarni Már Gylfason Verð: 18.000 / 21.000 Innifalið: Rúta og fararstjórn. Skráning og greiðsla fer fram á skrifstofu föstudaginn 20. apríl

Til fundar við almættið og sitt innra sjálf

Ef þú ert Íslendingur og leggur að auki einhverja stund á fjallgöngur þá er einboðið að Hvannadalshnúkur sé á verkefnalistanum og það jafnvel oftar en einu sinni, því nær himninum verður ekki komist hér á landi, alls 2.110 metra yfir sjávarmál. Með réttum undirbúningi og góðri leiðsögn er ganga á Hvannadalshnúk næsta auðveld hverjum fullfrískum manni, jafnt þindarlausum unglingum sem úthaldsgóðum öldungum. Gangan sem slík er ekkert sérstaklega erfið og krefst engrar sérkunnáttu eða tækni. Erfiðleiki göngunnar felst fyrst og fremst í því að þetta er afar löng fjallganga eða 12-15 klst, eftir því hvernig færið er á jöklinum sjálfum. Í Öræfum er að finna yfir 90 tinda hærri en þúsund metrar og hægt er að gleyma sér í fjallaskoðun hvert sem litið er. Skriðjöklar Öræfajökuls hafa hopað gríðarmikið á síðustu árum og sífellt kemur nýtt landslag í ljós undan jökli. Þannig geta jafnvel þeir sem gengið hafa á Hnúkinn áður uppgötvað ný og óséð jöklasker og hamraveggi. Virkisjökulsleiðin sem fyrir áratug var oftast gengin upp á topp er nú illfær og því er farin svokölluð Sandfellsleið, sem reyndar er sú leið sem helst var farin fyrr á öldum. Lagt er af stað við eyðibýlið Sandfell sem var í miðju hamfaranna í tvö síðustu skiptin sem Öræfajökull gaus, þ.e. árin 1362 og 1727. Þarna iðar hver þúfa af sögu sem gaman er að rifja upp á þeirri löngu göngu sem framundan er. Leiðin liggur upp brattar hlíðar Sandfellsins, upp á Sandfellsheiðina og þaðan að jökulröndinni í um 1.100 metra hæð þar sem hópnum er skipt upp í átta manna göngulínur. Á göngunni opnast smám saman útsýni að baki göngufólks yfir Ingólfshöfða, svartan Skeiðarársand og fjöllin hinum megin sands með Lómagnúp í forgrunni. Eftir sjöhundruð metra hækkun í viðbót er komið upp á brún Öræfajökulsöskjunnar og hinn fyrirheitni Hvannadalshnúkur blasir við, auk allra hinna öskjutindanna svo sem Sveinstinds og Snæbreiðar. Nú tekur við ganga yfir öskjuna sjálfa, skammt frá vestari öskjubrúninni, fyrir ofan hina hrikalegu skriðjökla Falljökul og Virkisjökul. Framundan blasir Hnúkurinn við og hinn ægifagri Dyrhamar.  Við rætur Hvannadalshnúks þarf að setja á sig göngubrodda og draga fram ísöxina og svo tekur við snörp tvöhundruð metra hækkun upp á sjálfan toppinn. Þegar upp er komið gleymast allar raunir göngunnar löngu, því útsýnið er engu líkt og hæðin er slík að sjóndeildarhringurinn fær bogadregna víðlinsu-ásýnd, svipað og myndir sem teknar eru utan úr geimnum! Því hefur verið haldið fram að ganga á Hvannadalshnúk sé lengsta dagleið á fjöllum í gervallri Evrópu og víst er rétt að óvíða erlendis tíðkast það að taka tvö þúsund metra hækkun á einum degi. Gangan reynir ekki síður á andlegt úthald þátttakenda en líkamlegt því göngumenn eru stóran hluta leiðarinnar fastir í línu, einir með sjálfum sér og sínum hugsunum. Hægt er að fullyrða að sú andlega næring og innhverfa íhugun sem út úr því fæst jafnist á við vikudvöl á indversku jógasetri. Hver sá sem sigrar Hvannadalshnúk hefur ekki aðeins gengið á hæsta fjall Íslands, heldur líka stærsta eldfjall landsins og það fjórða stærsta í Evrópu. Menn eru fullsæmdir af því afreki og geta með réttu gortað sig á mannamótum um ókomna tíð.

Nafnfræðifélagið - Fræðslufundur laugardaginn 21. apríl

Nafnfræðifélagið heldur fræðslufund laugardaginn 21. apríl nk., kl. 13.15 í stofu 201 í Odda, húsi Háskóla Íslands.  Ragnhildur Helga Jónsdóttir umhverfislandfræðingur heldur fyrirlestur sem hún nefnir Skráning örnefna í Borgarfirði Á síðustu 20 árum hefur verið unnið mikið starf við skráningu og kortlagningu örnefna í Borgarfirði, bæði á vegum Félags aldraðra í Borgarfjarðardölum og sem BS-verkefni í landfræði við Háskóla Íslands. Reynslan hefur sýnt að það er hver að verða síðastur að ná til heimildarmanna sem þekkja örnefnin og staðsetningu þeirra. Síðustu misseri hefur verið unnið að skráningu

Næsta myndakvöld 11. apríl

Næsta myndakvöld FÍ verður haldið miðvikudaginn 11. apríl kl. 20 í sal félagsins Mörkinni 6. Þá sýna Ferðafélag Fljótsdalshéraðs, Ferðafélag Fjarðarmanna og Ferðafélagið Norðurslóð myndir af sínum starfssvæðum og úr ferðum félaganna. Aðgangseyrir kr. 500, innifalið kaffi og kleinur. Allir velkomnir.

Tilboð FerðaAskur

31-35% afsláttur af FerðaAski í dag 11.apríl á aha.is. Í boði er FerðaAskur fyrir dagsferðir, 2 daga og 3 daga (miðstærð). Inneignarnótan gildir til 1.ágúst svo hægt er að panta sér FerðaAskinn þegar ykkur hentar í sumar. Ekki missa af þessu einstaka tilboði Sjá nánar hér  www.ferdaaskur.is

Fyrirlestur á vegum Félags íslenskra Fjallalækna

Velkomin(n) á fyrirlesturinn High Adventure með ævintýrakonunni Renötu Chlumska á vegum Félags Íslenskra FjallaLækna (FÍFL) og 66°NORÐUR í Háskólabíói miðvikudaginn 11. apríl 2012. Kl 20.00Renata Chlumska er 39 ára þriggja barna móðir sem hefur verið útnefnd af Outdore Magazine sem ein af fremstu ævintýrakonum heims. Hún var fyrst sænskra kvenna að ná tindi Everestfjalls og hefur lagt að baki fjölda annarra tinda, m.a. Shishapangma (8006 m) án viðbótarsúrefnis. Afrek hennar eru ekki bundin við fjallgöngur heldur ná einnig til hjólreiða og siglinga, til dæmis hjólaði hún frá Nepal til Stokkhólms á 4 mánuðum. Árið 2005 hjólaði hún og reri á kajak yfir 48 ríki Bandaríkjanna en ferðin tók næstum eitt og hálft ár og voru þá 18.500 km að baki. Næsta haust verður hún fyrsta sænska konan til að ferðast út í geiminn. Á undan fyrirlestri Renötu munu FÍFLin Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson segja stuttlega frá nokkrum háfjallaperlum Íslands, m.a. göngu á Miðfellstind, Snækoll og Kverkfjöll.  Einnig verður stutt kynning á nokkrum nýjungum frá 66°NORÐUR, þar á meðal verðlaunajakkanum Snæfelli og valdar flíkur verða seldar á staðnum með sérkjörum.Allir velkomnir. Aðgangur er ókeypis. 

Farið var á báða Meitlana í hávaða roki

Þriðja ferð verkefnisins eitt fjall á mánuði var farin 24. mars. Stór hópur lagði Stóra og Litla Meitil að fótum sér þó varla væri stætt í verstu hviðunum

Með fróðleik í fararnesti 21.apríl

Gísli Már Gíslason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, leiða ferð FÍ og HÍ 21. apríl á slóðir kræklingsins í Hvalfirði. Kræklingi verður safnað og fræðst um hann og verkun hans.

Sýnum tillitssemi og virðingu

Fyrr í vetur kom upp atvik í skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum þar sem einn ferðahópur varð uppvís að skrílslátum og óhóflegri drykkju í skálanum.  Jafnframt óku einstaklingar úr viðkomandi hópi á bílum sínum að lauginni í Landmannalaugum yfir mjög viðkvæmt svæði innan Friðlandsins. Umræddir einstaklingar hafa nú beðist afsökunar á hegðun sinni.

Skálavarsla í Landmannalaugum og Þórsmörk yfir páska

Skálavarsla verður í skálum FÍ í Landmannalaugum og Þórsmörk yfir páskana. Skálaverðir hafa verið að störfum undanfarnar vikur í Landmannalaugum og að þeirra sögn eru aðstæður til vetrarferðamennsku góðar ....