Fréttir

Örgöngur 16. maí

Á hverjum miðvikudegi í maí, er farið í gönguferðir um Grafarholt og nágrenni þess.  Þátttakendur safnast saman við hitaveitugeymana og þaðan er gengið í 1 ½ - 2 tíma um nærliggjandi holt og heiðar.  Ferðalok eru við geymana.  Ganga hefst  kl 19.  Ferðir sem þessar hafa verið farnar í maí undanfarin 3 ár og eru þátttakendur orðnir tæplega 500.  Þótt aðallega sé gengið á stígum, liggur leið að nokkru um móa og  því ráðlegt að vera í góðum skóm.  Þetta eru ekki hraðgöngur.  Örgöngur eru aldrei felldar niður vegna veðurs. Klæðið ykkur í samræmi við veðurútlit. Göngustjórar eru Guðlaug Sveinbjarnardóttir og Höskuldur Jónsson Þriðja gangan er miðvikudaginn 16. maí.  Leið: Gengið um stíginn sem liggur samhliða rörunum frá Nesjavöllum. Þaðan er haldið um stíg sem liggur um Selbrekkur að Rauðavatni – þaðan vestur með vatninu og upp Lyngdalinn – þaðan í Skálina og niður á göngustíg sem liggur um golfvöllinn.

Ferðafélag barnanna - fuglaskoðunarferð 17. maí

Fuglaskoðun og fjöruferð. Álftanes 17. maí. Kl. 16:00-18:00 Á Uppstigningardag fara allir út á Álftanes að skoða fugla, telja fugla, teikna fugla og semja ljóð um fugla. Fuglafræðingur fræðir þátttakendur um fugla og fjörulíf. Gott er að taka með eitthvað til að nasla í og jafnvel fötu, skóflu og stækkunargler. Mæting: Hist á einkabílum á bílastæðinu við Bessastaðakirkju á Álftanesi kl. 16:00. Ferðin tekur um 2 klst. Óþarfi að skrá sig hjá FÍ. Þátttaka ókeypis og allir velkomnir.

Er hægt að auka útiveru Íslendinga

Næstkomandi miðvikudag, 16. maí 2012, stendur Embætti landlæknis ásamt Umhverfisstofnun að málþingi undir yfirskriftinni Er hægt að auka útiveru Íslendinga? Málþingið fer fram á Grand Hótel í Háteigi A, kl. 9:00 – 16:00. Því er ætlað að skapa umræðuvettvang fyrir fólk sem starfar innan heilbrigðiskerfisins, á sviði sveitarstjórna, umhverfis- og skipulagsmála og í útivistargeiranum. Aðalfyrirlesari málþingsins, dr. William Bird, heimilislæknir í Oxfordshire á Bretlandi, er þekktur fyrir öflugt heilsueflingarstarf sitt sem að stærstum hluta hefur miðað að aukinni hreyfingu og útiveru almennings í náttúrulegu umhverfi. Hann hefur m.a. haft forgöngu um ráðgjafarvinnu fyrir Natural England, samtök sem eru að þróa nokkurs konar náttúrulega heilbrigðisþjónustu sem nýtir hið náttúrulega umhverfi sem uppsprettu að betri heilsu. Það er mikið gleðiefni að fá þennan reynda fyrirlesara og eldhuga á þessu við hingað til lands til að miðla af þekkingu sinni. Auk dr. Bird munu innlendir fyrirlesarar fjalla um hreyfingu, útiveru, skipulag og nýtingu svæða séð frá mismunandi sjónarhorni ofannefndra geira. Eftir hádegi verður haldin vinnustofa með dr. Bird, sem væntanlega mun opna augu þátttakenda fyrir því hvernig megi auka útiveru almennings og bæta nýtingu svæða til almennrar heilsueflingar. Við hvetjum alla sem hafa áhuga á málefninu að mæta á Grand Hótel 16. maí.  Aðgangur er öllum opinn, en skráning á málþingið fer fram hjá kristjanthor@landlaeknir.is. Skráningu lýkur 14

Hæsta greiðsla á Íslandi

Valitor er aðalsamstarfsaðili Ferðafélags Íslands og hefur undanfarin ár styrkt félagið til uppbyggingar á gönguleiðum, skilagerðar og bættrar aðstöðu á hálendi Íslands.  Þá hafa Valitor og FÍ unnið saman að gönguferðum og útiveru starfsmanna Valitor.  

Bjarni Guðleifsson og áratugirnir sjö

Bjarni E. Guðleifsson og áratugirnir sjö   Þótt ótrúlegt megi virðast verður Bjarni E. Guðleifsson, náttúrufræðingur og fjallgöngugarpur á Möðruvöllum, sjötugur  þann 21.  júní næstkomandi.  Hann hefur lengst af unnið sem sérfræðingur hjá Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (RALA), en síðustu árin hefur hann gegnt stöðu prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands með búsetu á Möðruvöllum.  Þá hefur hann skrifað fjölmargar greinar um náttúruvísindi og önnur hugðarefni í blöð og tímarit og ennfremur staðið að nokkrum bókum um þau efni.  Einnig hefur Bjarni, sem er mikill áhugamaður um fjallgöngur og hollt og heilbrigt líferni, skrifað tvær fjallgöngubækur, Á fjallatindum og Svarfaðardalsfjöll, sem báðar hlutu góðar viðtökur en eru nú uppseldar. Vegna fyrrgreindra tímamóta í lífi Bjarna ákvað Bókaútgáfan Hólar að gefa út afmælisrit honum til heiðurs og mun það nefnast Úr hugarheimi – í gamni og alvöru.  Mun bókin, sem verður í kilju, innihalda 30 pistla eftir afmælisbarnið sem eru bæði fræðandi og skemmtilegir, eins og við má búast. Í bókinni verður heillaóskaskrá – Tabula gratulatoria – og þar verða skráð nöfn þeirra einstaklinga, fyrirtækja, félaga og stofnana sem vilja senda Bjarna E. Guðleifssyni afmæliskveðju og jafnframt gerast áskrifendur að bókinni, en hún mun kosta kr. 4.380 m/sendingargjaldi og er áskriftarverðið innheimt fyrirfram. Hægt er að gerast áskrifandi að bókinni og skrá sig á heillaóskaskrána í síma 587-2619 og í netfangi holar@holabok.is Afmælisbarnið mun, eins og síðastliðin 20 ár, ganga á Staðarhnjúk (820 m) ofan við Möðruvelli að kvöldi afmælisdagsins, fimmtudagsins 21. júní. Hefst gangan við Möðruvelli 3 klukkan 20,00 og eru allir velkomnir. Að kvöldi föstudagsins tekur hann svo á móti gestum (en engum gjöfum) í Félagsheimilinu Hlíðarbæ kl. 20,00 og þangað eru auðvitað allir velkomnir.

Sungið á Öræfajökli

Fararstjórar Ferðafélags Íslands í ferð á Hvannadalshnúk um síðustu helgi brugðu á leik í 1100 metra hæð á leiðinni upp. 12 fararstjórar gripu til söngs undir forystu Róberts Marshall sem lék á ukulele. Myndband af gjörningnum hefur nú komist í umferð og er hægt að skoða og hlusta hér.

Barnavagnagöngur 7. - 11. maí - Fyrsta ganga frá Árbæjarlaug kl. 12.15

Fyrsta gangan í barnavagnaviku FÍ 7. - 11. maí er frá Árbæjarlaug kl. 12.15 mánudaginn 7. maí. Gönguferðir fyrir mömmur og pabba með barnavagna eða kerrur. Gönguferðir í 60 - 90 mínútur í Elliðaárdal, Fossvogi, Heiðmörk, út á Gróttu með barnavagna og kerrur.  Lagt af stað kl. 12.30 alla daga. Hressileg ganga með léttum æfingum, teygjum og slökun. Þátttaka ókeypis, allir velkomnir.

Örgöngur - 9. maí

Örgöngur Ferðafélags Íslands Á hverjum miðvikudegi í maí, er farið í gönguferðir um Grafarholt og nágrenni þess.  Þátttakendur safnast saman við hitaveitugeymana og þaðan er gengið í 1 ½ - 2 tíma um nærliggjandi holt og heiðar.  Ferðalok eru við geymana.  Ganga hefst  kl 19.  Ferðir sem þessar hafa verið farnar í maí undanfarin 3 ár og eru þátttakendur orðnir samtals um 400.  Þótt aðallega sé gengið á stígum, liggur leið að nokkru um móa og  því ráðlegt að vera í góðum gönguskóm.  Þetta eru ekki hraðgöngur.  Örgöngur eru aldrei felldar niður vegna veðurs. Klæðið ykkur í samræmi við veðurútlit. Göngustjórar eru Guðlaug Sveinbjarnardóttir og Höskuldur Jónsson Önnur gangan er miðvikudaginn 9. maí.  Leið: Gengið um stíginn sem liggur að Reynisvatni og norðan þess.  Þá er farið undir Reynisvatnsveginn og inn á stíg ofan nýja hverfisins sem er kennt við Haukadalsmenn. Stígurinn liggur austan í Reynisvatnsásnum og upp á hann – þaðan niður Klofabrekkur að Reynisvatni og gengið til baka um suðurbakka vatnsins og inn á malbikaðan stíg er liggur að vatnsgeymunum.

52 fjalla hópurinn tekst á við Hnúkinn

52 fjalla hópur Ferðafélags Íslands tókst á við Hvannadalshnúk um helgina. Veður var frábært, heiðskírt, stillt og kalt lengi framan af. Á öskjubrún í 1800 metra hæð tók að snjóa og var látlaus ofankoma í fjórar klukkustundir. Brotafæri í hné var á leiðinni yfir öskjuna að Hnúknum og mælt var tæplega 14 stiga frost. Mjög erfiðar aðstæður voru utan í Hnúknum, brattar ísbrekkur og skæni af nýsnævi huldi sprungur. Í tæplega 2000 metra hæð var því ákveðið að snúa frá. Þegar hópurinn var kominn áleiðis aftur til baka yfir öskjuna varð bjart á ný en áfram erfitt göngufæri. Hópurinn mætti þessum erfiðu aðstæðum af kjarki og harðfylgi og gleðin sveif yfir vötnunum enda gafst frábært útsýni yfir stórkostlegt landslag Öræfajökuls á leiðinni.Þátttakendur í förinni voru 92 og með þeim voru 12 fararstjórar. Fararstjórahópurinn steig á stokk í 1100 metra hæð og söng Óbyggðirnar kalla fyrir hópinn undir styrkri stjórn Róberts Marshall sem lék undir á bleikt ukulele. Aðrir fararstjórar sungu, léku á ásláttarhljóðfæri og sýndu danshreyfingar eftir getu.

Með fróðleik í fararnesti - landafræði á hjólum um miðborgina

  Með fróðleik í fararnesti - Landfræði á hjólum: Rýnt í borgarlandið Hvenær hefst þessi viðburður:  5. maí 2012 - 11:00 to 13:00 Staðsetning viðburðar:  Askja Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, leiðir hjólaferð um miðborgina og nágrenni. Staldrað verður við á nokkrum stöðum og fjallað um ýmis atriði borgarumhverfisins með augum landfræðinga. Hvaða öfl hafa öðru fremur mótað þróun Reykjavíkurborgar? Hvernig speglast hugmyndir almennra íbúa, skipulagshöfunda og arkitekta í ásýnd borgarinnar og hvaða breytingum hafa þær tekið í tímans rás? Hvaða afleiðingar hafa breytingar á íbúasamsetningu og atvinnulífi fyrir svipmót hverfa og gatna? Hvernig hefur svo á hinn bóginn hið byggða umhverfi, sem og óbyggð svæði, áhrif á mannlífið í borginni? Síðast en ekki síst, hvernig tengjast umferðarmálin þessu öllu? Þátttakendur mæti á hjóli. Lagt verður af stað frá Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, kl. 11 og er gert ráð fyrir að ferðin taki um það bil tvær klukkustundir. Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands halda áfram samstarfi sínu um gönguferðir sem efnt var til í tilefni aldarafmælis skólans 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum og nú hjólaferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Ferðirnar verða fimm talsins og tekur hver um tvær klukkustundir. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir. Markmiðið með samstarfinu er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskólans og Ferðafélagsins.