Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor og Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, völdu óvenjulega leið til að undirrita nýjan samstarfssamning Ferðafélagsins og Valitor síðastliðna helgi. Þeir gerðu sér lítið fyrir og skruppu upp á Hvannadalshnjúk ásamt fríðu föruneyti þar sem gjörningurinn var framinn. Takmarkinu var náð eftir um 10 klst. göngu og fór undirskriftin fram um hádegisbil á föstudeginum í roki og kulda en björtu skyggni og fögru útsýni.
Viðar Þorkelsson forstjóri Valitor: „Val okkar á hæsta tindi Íslands til undirritunar var ekki einungis til þess að takast á við skemmtilega og holla áskorun. Valið er líka táknrænt fyrir áherslu beggja félaganna á ná sem bestum árangri í öllu okkar samstarfi. Það er ánægjulegt að geta stutt við starf Ferðafélagsins og gaman að sjá hvernig Íslendingum sem ferðast innanlands fer sífellt fjölgandi. Áhugi á útiveru og náttúru landsins hefur aukist mjög samhliða almennri vakningu um mikilvægi heilbrigðra lífshátta. Þessi áhugi hefur meðal annars náð inn í starfsmannahóp Valitor og við höfum átt gott samstarf við FÍ á þeim vettvangi.“
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ: „Það er mikilvægt fyrir félagið að njóta stuðnings öflugra aðila á borð við Valitor. Það hjálpar okkur meðal annars bjóða upp á ókeypis ferðir og þar með hvetja fólk til gönguferða og útivistar. Svo mikil þátttaka er orðin í okkar starfi að við getum stolt talað um það sem lýðheilsustarf á meðal landsmanna. Það var mjög skemmtilegt að svo fjölmennur hópur frá Valitor tæki þátt og sýndi hvað í honum býr. Ganga sem þessi krefst góðs úthalds, hækkunin er rúmlega 2.000 metrar sem reynir á þolrifin og ágætis áskorun þegar gengið er á tindinn og niður aftur nánast í einni lotu.“
Valitor hefur verið aðalsamstarfsaðili Ferðafélags Íslands undanfarin fimm ár og hefur m.a. styrkt félagið til uppbyggingar á gönguleiðum, til skiltagerðar og bættrar aðstöðu á hálendi Íslands. Þá hafa Valitor og FÍ unnið saman að gönguferðum og útiveru starfsmanna Valitor. Í undirskriftarleiðangrinum var 42 manna hópur frá Valitor, starfsmenn og makar, sem höfðu tekið þátt í æfingarferðum FÍ undanfarna mánuði með það fyrir augum að búa sig undir gönguna á Hvannadalshnúk. Ferðin gekk mjög vel enda farin undir traustri leiðsögn þaulkunnugra farastjóra FÍ.
Nánari upplýsingar veita Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands í síma 568-2533 og Kristján Þór Harðarson, sviðsstjóri Markaðs-og þróunarsviðs Valitor í síma 525-2000.