Á aldarafmæli Háskóla Íslands taka skólinn og Ferðafélag Íslands höndum saman og standa fyrir gönguferðum reglulega yfir afmælisárið. Reynsla og þekking leiðsögumanna ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess.
Gönguferðirnar verða 12 talsins og taka hver um 2 klukkustundir.
Markmið samstarfs Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands er að færa almenningi afmælisgjöf sem felst í fræðslu og hollri útivist. Um leið er vakin athygli og áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands. Þátttaka er ókeypis, allir velkomnir. Ekki þarf að skrá sig fyrirfram
Skólaganga
10. september leiðir Helgi Skúli Kjartansson, prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands, gönguferð um slóðir menntunar og fræðslu í höfuðborginni. Gönguferðin hefst kl. 14:00 gatnamót Pósthússtrætis og Hafnarstrætis þar sem Barnaskóli Reykjavíkur var áður til húsa.