Fréttir

Samningur við Siglingastofnun um Hornbjargsvita

Í vikunni skrifuðu  Hermann Guðjónsson forstjóri Siglingastofnunar og Ólafur Örn Haraldsson  forseti Ferðafélags Íslands undir samning til fimmtán ára um afnot vitavarðarbústaðarins við Hornbjargsvita í Látravík. Þar var samþykkt að ferðafélagið fær bústaðinn til afnota endurgjaldslaust gegn því að sinna viðhaldi og endurbótum á mannvirkjum og aðstöðu sem nauðsynleg er til reksturs ferðaþjónustu á staðnum.

Árbókarferð með Árna Björnssyni - Í dali vestur - sunnudagur 14. ágúst

Ferðafélag Íslands efnir til árbókarferðar vestur í Dali með Árna Björnssyni þjóðháttafræðingi og höfundi árbókar  2011. Ferðin er dagsferð og verður farin sunnudaginn 14. ágúst. Farið er víða um héraðið og meðal annars komið við á sögufrægum stöðum sem fjallað er um í bókinni.

Dagsferð umhverfis Hítarvatn 7. ágúst aflýst

Ganga umhverfis Hítarvatn í Hítardal. Gangan hefst við skálann við Hítarvatn. Þessari ferð hefur verið aflýst.  

Fossaganga á Gnúpverjaafrétti 13. - 14. ágúst

Lagt af stað frá Mörkinni 6 kl. 8 á laugardegi og ekið um Þjórsárdal inn á Gnúpverjaafrétt að Dalsá. Haldið að Dynk og á Kóngsás. Gist er í skála í Hólaskógi þar sem er sameiginlegur heitur matur.

Esjudagur FÍ og Valitors

Sunnudaginn 28. ágúst verður Esjudagur FÍ og Valitors haldin. Ferðafélag barnanna býður öllum börnum í ókeypis gönguferð. Jarðfræðingar og sagnfræðingar mæta. Fjölskylduskemmtun á bílastæði við Mógilsá. Þáttaka ókeypis og allir velkomnir.

Aukaferð um Vatnaleiðina

Nú hefur verið sett upp aukaferð um Vatnaleiðina svokölluðu þar sem gengið er að Hlíðarvatni, Hítarvatni, Langavatni og Hreðavatni auk þess sem gengið verður hæstu fjöll á leiðinni.  Fararstjórar eru þeir fjallabræður Örvar og Ævar.....

Vonarskarð - víðerni í Vatnajökulsþjóðgarði

Ferðafélag Íslands og Landvernd standa saman að nokkrum ferðum á hverju sumri.  Í sumar hafa verið farnar bæði dagsferðir og lengri ferðir,  m.a. í Kerlingarfjöll og á Reykjanesskaga.   Síðustu gönguferð Landverndar og Ferðafélags Íslands í sumar er heitið í Vonarskarð sem er víðerni í Vatnajökulsþjóðgarði. Tilgangur ferðarinnar er að kanna eina af fágætum perlum íslenskrar náttúru, - hverasvæði sem skartar m.a. óvenju litríkum hveraörverum. Kristján Jónasson sviðsstjóri og jarðfræðingur á Náttúrufræðistofnun verður með í för og fræðir hópinn um þau merkilegu fyrirbæri sem á vegi göngufólks verða.  Ferðin í Vonarskarð er liður í gönguferðum Landverndar og Ferðafélags Íslands um jarðhitasvæði. Yfirlýst markmið samtakanna er að skoða svæðin út frá sjónarhóli náttúruverndar, hugleiða möguleg áhrif orkuvinnslu á þau og njóta um leið útivistar í sérstæðu landslagi í einkar gefandi félagsskap. Ferðir Landverndar hafa mælst vel fyrir og sérfróðir leiðsögumenn gert sitt í því að skapa frjóa umræðu um sérkenni svæðanna, náttúruvernd og þýðingu hennar fyrir þau jarðhitasvæði sem ferðast er um. Umræður í bland við fræðslu hafa gefið ferðunum ómetanlegt gildi og göngufólk snúið heim bæði ríkt af fróðleik og tilfinningu fyrir landinu.    Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig í ferðina eru beðnir að hafa samband við Ferðafélag Íslands í síma 568 2533.   Ferðalýsing Vonarskarð - víðerni í Vatnajökulsþjóðgarði Brottför föstudag 12. ágúst kl. 16 frá Mörkinni 6 Ekið frá Reykjavík í náttstað í Nýjadal. Að morgni laugardags ekið inn á Gæsavatnaleið að Gjóstuklifi. Þaðan er gengið inn að jarðhitasvæðinu í fjalllendinu suður og vestur af Laugakúlu. Farið í bað í varmá sem rennur úr kolsýruhverum sunnan undir kúlunni. Leirhverir, leirugir vatnshverir, kolsýrulaugar og -hverir ásamt hveraörverum í afrennsli setja svip sinn á háhitasvæðið. Stærsta eldstöð landsins, Bárðarbunga, rís tilkomumikil yfir víðernið í Vonarskarði. Litfögur líparítfjöllin, Eggja og Skrauti, móbergsfjöll og grásvartir sandar einkenna landslag. Frá hverasvæðinu er gengið í Snapadal áður en haldið er tilbaka í náttstað í Nýjadal. Drjúg dagleið. Á sunnudag verður gengið upp að jaðri Tungnafellsjökuls áður en lagt verður af stað heim. Kvíslaveitur skoðaðar á leiðinni til Reykjavíkur. Heimkoma áætluð um kl. 19.00.

Ferðafélagið tekur við rekstri Hornbjargsvita

Ferðafélag Íslands hefur tekið við rekstri Hornbjargsvita af þeim hjónum Ævari Sigdórssyni og Unu Lilju Eiríksdóttur.  FÍ gerir langtímasamning við Siglingastofnun um rekstur og viðhald á húsum á svæðinu.  Pantanir á gistingu í Hornbjargsvita fer nú fram á skrifstofu FÍ.

Valgarður Egilsson á Þingvöllum

Fimmtudagskvöldið 21.júlí mun Valgarður Egilsson læknir, rithöfundur og fararstjóri hjá FÍ  rifja upp ýmsar sagnir úr sögu Þingvalla frá þjóðveldisöld fram á síðustu öld. Hann hefur sjálfdæmi um efnistök og eru allir velkomnir í gönguferðina sem hefst klukkan 20.00 við fræðslumiðstöðina.

Laugavegurinn í ágúst

 Gengið um Laugaveginn sem er vinsælasta gönguleið landsins. Fjölbreytt landslag, m.a. háhitasvæði, sandar, ár (brúaðar og óbrúaðar) og skóglendi. Tilvalið að skella sér í þessa frábæru gönguferð um miðjan ágúst.