Ferðafélag Íslands og Landvernd standa saman að nokkrum ferðum á hverju sumri. Í sumar hafa verið farnar bæði dagsferðir og lengri ferðir, m.a. í Kerlingarfjöll og á Reykjanesskaga. Síðustu gönguferð Landverndar og Ferðafélags Íslands í sumar er heitið í Vonarskarð sem er víðerni í Vatnajökulsþjóðgarði. Tilgangur ferðarinnar er að kanna eina af fágætum perlum íslenskrar náttúru, - hverasvæði sem skartar m.a. óvenju litríkum hveraörverum. Kristján Jónasson sviðsstjóri og jarðfræðingur á Náttúrufræðistofnun verður með í för og fræðir hópinn um þau merkilegu fyrirbæri sem á vegi göngufólks verða.
Ferðin í Vonarskarð er liður í gönguferðum Landverndar og Ferðafélags Íslands um jarðhitasvæði. Yfirlýst markmið samtakanna er að skoða svæðin út frá sjónarhóli náttúruverndar, hugleiða möguleg áhrif orkuvinnslu á þau og njóta um leið útivistar í sérstæðu landslagi í einkar gefandi félagsskap. Ferðir Landverndar hafa mælst vel fyrir og sérfróðir leiðsögumenn gert sitt í því að skapa frjóa umræðu um sérkenni svæðanna, náttúruvernd og þýðingu hennar fyrir þau jarðhitasvæði sem ferðast er um. Umræður í bland við fræðslu hafa gefið ferðunum ómetanlegt gildi og göngufólk snúið heim bæði ríkt af fróðleik og tilfinningu fyrir landinu.
Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig í ferðina eru beðnir að hafa samband við Ferðafélag Íslands í síma 568 2533.
Ferðalýsing Vonarskarð - víðerni í Vatnajökulsþjóðgarði
Brottför föstudag 12. ágúst kl. 16 frá Mörkinni 6
Ekið frá Reykjavík í náttstað í Nýjadal. Að morgni laugardags ekið inn á Gæsavatnaleið að Gjóstuklifi. Þaðan er gengið inn að jarðhitasvæðinu í fjalllendinu suður og vestur af Laugakúlu. Farið í bað í varmá sem rennur úr kolsýruhverum sunnan undir kúlunni. Leirhverir, leirugir vatnshverir, kolsýrulaugar og -hverir ásamt hveraörverum í afrennsli setja svip sinn á háhitasvæðið. Stærsta eldstöð landsins, Bárðarbunga, rís tilkomumikil yfir víðernið í Vonarskarði. Litfögur líparítfjöllin, Eggja og Skrauti, móbergsfjöll og grásvartir sandar einkenna landslag. Frá hverasvæðinu er gengið í Snapadal áður en haldið er tilbaka í náttstað í Nýjadal. Drjúg dagleið.
Á sunnudag verður gengið upp að jaðri Tungnafellsjökuls áður en lagt verður af stað heim. Kvíslaveitur skoðaðar á leiðinni til Reykjavíkur. Heimkoma áætluð um kl. 19.00.