Fréttir

Til þátttakenda í hvítasunnuferð FÍ á Hvannadalshnúk

Gengið verður á fjallið sunnudaginn 12. júní. Mæting er í Sandfell kl 03, aðfaranótt sunnudags.  -Fararstjóri.

Hamarinn í samvinnu við jarðvísindadeild HÍ býður til fyrirlesturs 14. júní kl. 17:15 í Öskju

Vegna tengsla eins stjórnarmanns í Hamrinum (Elísabet Brand) við Doris Sloan hefur okkur tekist að fá Doris til að halda fyrirlestur um jarðfræði San Fransico flóans.   Doris Sloan er adjunct (aðstoðar professor) við jarðfræðideild Kalíforníuháskóla í Berkeley. Hún er með doktorsgráðu í steingervingafræði (paleontology) frá sama háskóla. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að örsteingervingum í setlögum undir San Francisco flóa og það sem þessir steingervingar geta sagt okkur um jarðsögu svæðisins. Hún kenndi við skólann í tvo áratugi, hefur kennt við fullorðinsfræðslu og stjórnað vettvangsferðum um svæðið. Eftir að hún komst á eftirlaun hefur hún ferðast víða um heim einkum með núverandi og fyrrverandi nemendum háskólans. Hún hefur tvisvar komið með hópa til Íslands (2005 og 2009) og naut þá dyggrar leiðsagnar Elísabetar Brand.

ESJUDAGUR FÍ OG VALITORS FRESTAÐ

Esjudeginum hefur verið frestað vegna kuldalegs útlits og aðstæðna í fjallinu.  Ný dagsetning verður kynnt á næstunni. 

Esjudeginum frestað

Esjudegi FÍ og Valitor sem vera átti 5. júní hefur verið frestað.  Enn er beðið eftir sumrinu og aðsætður kuldalegar í fjallinu. Ný dagsetning Esjudagsins verður kynnt á næstunni.

Gönguferðir Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands - Goð og garpar í fornum heimildum

Goð og garpar í fornum heimildum 28. maí mun Guðrún Kvaran prófessor og sviðsstjóri á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ganga um Þingholtin og rifja upp sögur úr norrænni goðafræði. Fjallað verður um nöfn goðanna og vinsældir þeirra í nafngjöfum síðari tíma. Þá verður haldið lengra austur og rætt um forna kappa úr Íslendingasögum og Landnámu og nöfn þeirra og notkun í samtímanum. Gangan hefst kl. 14:00 á bílastæði Háskóla Íslands neðan við Skeifuna og lýkur á sama stað og lagt var upp.

Reykjanes - Reykjanestá - Gunnuhver með Landvernd

Sunnudagur 29. maí kl. 10.00-17.00Brottför frá Mörkinni 6 Dagskrá hefst með stuttum fyrirlestri leiðsögumanns um jarðfræði Reykjaness. Ekið á Reykjanes um Hafnir. Litast um við Reykjanesvirkjun. Gengið frá bílastæði við Reykjanesvita vestur að gossprungunni frá 1226 og skoðuð ummerki eftir gosið, en gossprungan var bæði á landi og í sjó. Gengið á Valahnúk og horft yfir brimurðina og Reykjanestá. Gengið að hverasvæðinu og litið á Gunnuhver og Reykjanes-Geysi. Skoðaðar skjálftasprungur. Ekið til baka um Grindavík. Nokkur ganga en ekki erfið. Kristján Jónasson, jarðfræðingur leiðir hópinn og skýrir jarðeldasvæðið út frá sjónarhóli náttúruverndar. Ferðin er samstarfsverkefni Ferðafélags Ísland og Landverndar. Verð: 3.000 / 3.900 Innifalið: rúta og fararstjórn

Örgöngur Ferðafélagsins

Örgöngur Ferðafélagsins -  Ekkert þátttökugjald   Fjórða og síðasta gangan um nágrenni Grafarholts verður miðvikudaginn 25. maí. Lagt verður af stað frá vatnsgeymunum kl:19.  Leið: Gengið er um stíg, sem liggur að Hádegismóum – Þaðan haldið upp á Hádegisholt – þaðan um Lyngdalsklauf í Skálina (Paradísardal) – úr Skálinni niður á göngustíg sem liggur að geymunum.  Leiðin er að nokkru utan stíga og því ráðlegt að vera í góðum gönguskóm.  Þetta er ekki hraðganga.  Ætlaðar eru 1 ½ - 2 klukkustundir til ferðarinnar. Örgöngur eru aldrei felldar niður vegna veðurs. Þetta er síðasta örgangan á þessu vori. Fararstjórar:  Guðlaug Sveinbjarnardóttir og Höskuldur Jónsson

Maximús músikus og Ingó veðurguð mæta á Esjudaginn 5. júní

Ferðafélag Íslands og Valitor bjóða til hins árlega Esjudags sunnudaginn  5.júní  Dagskráin ár er fjölbreytt, sannkölluð hátíð göngufólks og útivistarunnenda.  Boðið verður upp á miðnæturgöngu, morgungöngu og fjölskyldudagskrá á sunnudeginum 5. Júní.  Í öllum skipulögðum göngunum verða fararstjórar Ferðafélagsins ásamt jarðfræðingum  sagnfræðingum og skógræktarmönnum. 

Bókaútgáfan Hólar hefur gefið út bókina Svarfaðardalsfjöll eftir Bjarna E. Guðleifsson.

  Svarfaðardalur er að sumum talinn fegursti dalur í byggð á Íslandi.  Að einhverju leyti skapast það af því að dalurinn og afdalir hans eru umkringdir sérlega fallegum en jafnframt hrikalegum fjöllum.  Þessi fjallgarður er lítt kannaður en árið 1995 ákváðu fjórir göngufélagar að ganga þennan fjallahring allan.  Hreppamörkin umhverfis Svarfaðardal eru um 120 km löng og telja 75 tinda með jafnmörgum skörðum.  Það tók félagana fimmtán göngudaga á átta árum að ljúka verkefninu.  Í bókinni Svarfaðardalsfjöll er ferðum þeirra félaganna eftir vatnaskilum og fjallseggjum lýst í máli en einnig með 138 myndum og 18 kortum.  Nöfn flestra tinda eru færð inn á myndirnar og skörð eru nafnkennd á kortunum.

Skráning hafin !

Nú er sumarstarf Ferðafélags barnanna að byrja og  við hvetjum fólk til að endurnýja félagsskírteinin og staðfesta skráningu frá því í fyrra. Hægt er að hafa samband við okkur með því að senda  tölvupóst á fb@fi.is eða hringja í okkur í síma 568 – 2533.