Helgarferðin 4. – 6. mars, sem kynnt var á Ársfundinum í janúar sl. vakti mikinn áhuga og er næstum uppselt í ferðina, en nokkur pláss eru enn laus og eru allir velkomnir.
Vinir Þórsmerkur hafa áhuga á að byggja göngubrú yfir Markarfljót, úr Fljótshlíð að Húsadal. Fyrsti styrkurinn sem fæst til verksins er úr sjóði Ferðamálastofu en hann hrekkur þó skammt. Göngubrú yfir Markarfljót myndi opna Þórsmörk enn betur en nú er. Öryggi ferðafólks myndi aukast. Það myndi komst heim þótt ár verði ófærar.
Aðalfundur Ferðafélagsins Norðurslóðar verður haldinn í Gljúfrastofu miðvikudaginn 23. febrúar og hefst hann kl. 20:00.Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf, svo sem skýrsla stjórnar og reikningar, kosningar og önnur mál. Þá verður ferðaáætlun Norðurslóðar 2011 kynnt.Gestir fundarins verða þeir Ólafur Örn Haraldsson forseti Ferðafélags Íslands og Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ.
Eins og komið hefur fram er gríðarleg þátttaka í 52 fjöll á ári á vegum FÍ á þessu ári. En samskonar verkefni var starfrækt í fyrra með síst minni þátttöku. Á dögunum hófst sérstakt verkefni fyrir þátttakendur úr 52 fjalla verkefninu á síðasta ári sem höfðu áhuga á erfiðari verkefnum. Þessi hópur sem telur ríflega 40 harðsnúna fjallagarpa hefur farið í nokkrar hressandi fjallgöngur saman en stefnir á jöklagöngur og há fjöll á vormánuðum.Laugardaginn 19 febrúar gekk hópurinn á Blákoll/Ölver við Hafnarfjall. Hér og hér má sjá nokkrar myndir úr leiðangrinum
Páskaferð með Ferðafélaginu á Snæfellsnes. Þátttakendur koma á eigin vegum að Lýsuhóli þar sem gist er í ferðinni. Allur kostnaður við ferðina, gisting, sameiginlegur matur, rútuleggir á svæðinu er gerður upp á staðnum og deilt niður á þátttakendur. Undirbúningsfundur með fararstjóra í vikunni fyrir páska.
12. febrúar mun Pétur Ármannsson, arkitekt, leiða okkur um byggingarsögu Guðjóns Samúelssonar og hugmyndir hans um „háborg íslenskrar menningar“ sem átti að rísa á Skólavörðuholti. Gönguferðin hefst við innganginn í viðbyggingu Alþingishússins kl. 14:00.
Ferðafélag Íslands býður til vað-námskeiðsferðar um Merkurvötnin með gistingu og grillveislu í Skagfjörðsskála. Kennt verður að leita vaðs í ám og menn æfa sig í að vaða straumvatn. Námskeiðið hentar vel öllum þeim sem á ferð sinni koma vatnsfalli og þurfa að komast yfir - hvort sem þeir eru gangandi, hjólandi eða akandi. Verklegar æfingar á Þórsmerkurleið helgina 5. - 6. mars. Umsjón: Gísli Ólafur Pétursson
Almennt námskeið fyrir byrjendur og þá sem vilja upprifjun í notkun á staðsetningartækjum.Farið er yfir notkun á staðsetningartækjum og þátttakendur æfa sig í að finna punkta og setja inn í tækin og merkja út á korti. Þátttakendur hafa með sér eigin GPS tæki, áttavita og skriffæri. Námskeiðið er tvö kvöld inni og svo ein útiæfing.
Eyrarfjall í Kjós var fjall mánaðarinns í febrúar.
Á Eyrarfjallið æddum svo
allveg var það gefið.
Tindaskráin telur tvo
við tókum þetta í nefið.
Ekki er hægt að segja annað en að ferðin hafi gengið vel þrátt fyrir dimm vestan él sem gengu reglulega yfir. Hópurinn var stór, 110 manns sem fór án nokkurra vandræða alla leið og vorum við ekki nema um 1 og hálfan tíma upp sem er mjög gott í svona stórum hópi. Veðrið bauð ekki upp á mikil útsýnisstopp og aðeins var staldrað við nokkrum sinnum til að þétta hópinn. Fengum okkur nesti í bland við skafrenning á tindinum. Greinilegt er að janúargangan á Blákoll í vonsku veðri gerði það að verkum að allir voru mjög vel búinir. Þó kom í ljós að þeir sem voru með vindlúffur og góðar húfur leið greinilega betur í skafrenningnum.