Metaðsókn í morgungöngur
06.05.2011
Morgungöngum Ferðafélags Íslands þetta vorið lauk á Úlfarsfelli á föstudagsmorgun. Þangað komu 150 manns í austanstrekkingi og kulda en þurru veðri. Þátttaka í morgungöngum 2011 varð því alls 650 manns sem er mesta þátttaka síðan þessu skemmtilega verkefni var komið á laggirnar. Það var Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri sem átti hugmyndina og ýtti verkefninu af stað en síðustu fjögur árin hafa Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir annast umsjón og fararstjórn í morgungöngum.Eins og í fyrra var lesið úr Skólaljóðunum á hverju fjalli og á Úlfarsfellinu bauð FÍ upp á morgunmat. Gunnsteinn Ólafsson kórstjóri stjórnaði svo hópnum í söng á fornum kvæðalögum í morgunsárið.