Fréttir

Esjan að vetri hefst í dag.

Esjan að vetri - undirbúningur fyrir Hvannadalshnúk hefst í dag.  Gengið verður vikulega á Esjuna eftir hinum fjölmörgu gönguleiðum sem eru að finna í Esju.  Fyrsta gangan er á Þverfellshorn og er mæting við Esjustofu 17.55 og lagt af stað kl. 18.  Fararstjóri er hinn síungi og liðugi Þórður Marelsson.  Enn er hægt að skrá sig í verkefnið og skella sér í hörkuform fyrir Hnúkinn.

Vel bókast í ferðir

Vel hefur bókast í ferðir félagsins eftir að Ferðaáætun 2011 kom út.  Nú er þegar orðið fullbókað í nokkrar ferðir og töluvert bókað í margar ferðir.  Í mörgum ferðum miðast hámarksfjöldi við 18 - 20 manns og því mikilvægt að vera tímanlega að bóka í ferð.  Hægt er að bóka í ferðir, bæði með því að hringja á skrifstofu eða með því að senda tölvupóst á fi@fi.is

Ferðaáæltun Ferðafélags barnanna 2011

Ferðafélag barnanna starfar yfir sumartímann.  Þá er boðið upp á ferðir sérstaklega fyrir börn og fjölskyldufólk.  Ferðaáæltunin Ferðafélags barnanna kemur út í lok mars og er kynnt hér á heimasíðunni.  Hér má þó sjá brot af því sem verður í boði í sumar, auk fjölskylduferðar um Laugaveginn,  Frí frá Facebook á Hornstrandir og fjölskylduferðir í Norðurfjörð.  Skráðir félagar í FB fá senda ferðaáætlunina heim auk félagsskirteinis.

Fjölskylduferð um Laugaveginn sumarið 2011

FERÐAFÉLAG BARNANNAFjölskylduferð um Laugaveginn í sumarFerðafélag barnanna býður upp á fjölskylduferð um Laugaveginn 19. - 23. júlí í sumar.  Tilvalin ferð fyrir alla fjölskylduna með frábærum fararstjórum þeim Þórði og Fríðu. Fararstjórar: Þórður Marelsson og Fríður Halldórsdóttir Fjölskylduferð um vinsælustu gönguleið landsins, gist í skálum og farangur fluttur á milli staða. Fararstjórarnir Þórður og Fríður halda uppi stemmningu af sinni alkunnu snilld með ýmsum leikjum, æfingum og sprelli. Tilvalin ferð fyrir alla fjölskylduna. Verð: 50.000 fyrir fullorðin, kr. 20.000 fyrir börn. Innifalið: Gisting, trúss og fararstjórn. Skráning á skrifstofu FÍ  

Samstarfsyfirlýsing / samkomulag milli Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands

Á þeim tímamótum sem framundan eru, aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011, hafa Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands ákveðið að vinna að ákveðnum verkefnum í sameiningu.  Verkefnið gengur út á það að Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands munu bjóða sameiginlega upp á gönguferðir sem auglýstar verðar undir formerkjum aldarafmælis Háskóla Íslands og Ferðafélagsins.

Göngugleði Fí alla sunnudag

Göngugleði FÍ er verkefni sem hefur staðið yfir í nokkur ár.Þá er boðið upp á ókeypis gönguferð á sunnudögum í nágrenni Reykjavíkur. Þátttakendur mæta í Mörkina 6 kl. 10.30  og koma sér saman hvert skuli haldið.  Ekið er á einkabílum ( sameinast í bíla) að upphafsstað göngu.  Gönguferðin er öllu jafna 2 - 5 klst.  Takið með ykkur nesti og góðan útbúnað.Í þessum ferðum er lögð áhersla á að njóta útiverunnar og náttúrunnar, taka gott ,,kaff" spjalla og spekúlera.  Þátttakendur miðla af sínum viskubrunni, hvort heldur um sögu, náttúru eða hvað annað. Það eru allir velkomnir í göngugleði FÍ og þátttaka ókeypis.

Á Blákoll fyrst við bröltum á

Á Blákoll fyrst við bröltum áþað bara reyndist gaman.Þó blési á móti og blaut varð táþá blessaðist allt saman. Fyrsta gangan í 12 fjalla verkefni FÍ var um sl. helgi.  Þá gengu 92 þátttakendur á Blákoll.  Fararstjórar voru Ævar og Örvar Aðalsteinssynir auk fleiri fararstjóra en þeir bræður ( fjallabræður ) eru aðalfararstjórar verkefnisins.  Að lokinni göngu var til þessi ágæta vísa.

Ferðafélagið Norðurslóð - fréttir af starfi deilda

Ferðafélagið Norðurslóð fór í fyrstu göngu ársins á laugardaginn, 29. janúar. Gengið var um Rauðanesið í Þistilfirði. Veður var prýðilegt, nokkurra stiga hiti og lygnt er komið var út á nesið. Göngufæri var gott þó kastað hefði éljum kvöldið áður. Þátttakendur nutu hressandi útivistar og fallegrar náttúru í vetrarbúningi. Sjá nánar fréttir af starfi deilda.

Esjan að vetri - opið gönguverkefni - undirbúningur fyrir Hvannadalshnúk

FÍ býður nú upp á Esjan að vetri, gönguverkefni frá feb - júní þar sem gengið er á Esjuna einu sinni í viku með fararstjóra.  Í verkefninu er gengið eftir hinum ýmsu gönguleiðum á Esjunni sem eru miklu fleiri og fjölbreyttari en flestir gera sér grein fyrir.  Meðal annars verður gengið á Dýjadalshnúk, Kerhólakamb, í Gunnlaugsskarð, Móskarðshnúka, Laufskörð og Þverfellshorn.  Esjan að vetri er tilvalið sem undirbúningsverkefni fyrir gönguferð á Hvannadalshnúk.

Breyting á fyrstu göngu með háskólanum - Úlfarsfell í stað Reykjaborgar

Vegna óhagstæðra veðurskilyrða þarf að flytja gönguna sem vera átti á Reykjaborg laugardaginn 29. janúar. Vegna rigningar undanfarið er jarðvegur í Hafrahlíð og við Reykjaborg orðinn mjög blautur auk þess sem frost er að fara úr jarðvegi þannig að göngufólk kæmi til með að sökkva í mela og viðkvæman gróður á gönguleiðinni og þar með er hætta á gróðurspjöllum. Því hefur verið ákveðið að flytja gönguna á Úlfarsfell og leggja af stað frá Leirtjörn kl. 11:15.