FÍ í samstarfi við Reykjalund og HÍ - gönguverkefni fyrir offitusjúklinga
14.12.2010
Ferðafélag Íslands hefur undanfarna tvo mánuði, í samstarfi við Reykjalund og Rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræðum við Háskóla Íslands, boðið upp á gönguferðir fyrir offitusjúklinga sem um leið er hluti af rannsókn á áhrifum reglubundinnar útivistar í endurhæfingu offitusjúklinga á Reykjalundi. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir að Ferðafélagið hafi undanfarin misseri unnið að því að efla samstarf við góða aðila um gönguferðir sem forvarnarstarf og endurhæfingu og samstarfið nú við Reykjalund og HÍ sé liður í því. Páll segir að loknu þessu rannsóknarverkefni sem nú standi yfir sé markmiðið að bjóða upp á slík verkefni opin öllum, auk þess sem horft sé til fleiri hópa svo sem þá sem eru með hjarta- og æðasjúkdóma, geðraskanir, þunglyndi og fleiri sjúkdóma, þar sem gönguferðir, líkamsrækt og útivera geta hjálpað verulega.