Amma og afi gengu Laugaveginn með Kjartani, bróður Magnúsar sumarið 2005, almenna trússferð, Kjartan var 9 ára og ferðin tókst svo vel að amma vildi endurtaka leikinn með næstu tvö barnabörnin. Það bar því vel í veiði þegar Ferðafélagið auglýsti fjölskylduferð í tengslum við Ferðafélag barnanna. Amma skráði liðið sitt í ferðina og eftirvæntingin hlóðst jafnt og þétt upp. Krakkarnir gistu hjá ömmu og afa nóttina fyrir brottför því mæting var í Mörkina kl. 8.00 um morguninn og eins gott að ekkert færi útskeiðis. Um kvöldið var farið vandlega yfir gönguáætlun og útbúnaðarlista, enda áríðandi að ekkert vantaði. Spenna og eftirvænting magnaðist eftir því sem á leið en allir sváfu vel og vöknuðu snemma og það þurfti sko ekki að minna neinn á að taka góða skapið með í ferðina.