Fréttir

GPS námskeið

GPS Staðsetningartæki og rötun Mæting á námskeiðið sem hefst mánudaginn 13. september er kl. 19:30 í st. 206 á 2. hæð Tækniskólans við Háteigsveg (áður Sjómannaskólinn). Almennt námskeið fyrir byrjendur og þá sem vilja upprifjun í notkun á staðsetningartækjum. Farið er yfir notkun á staðsetningartækjum og þátttakendur æfa sig í að finna punkta og setja inn í tækin og merkja út á korti. Þátttakendur hafa með sér eigin GPS tæki, áttavita og skriffæri. Námskeiðið er tvö kvöld inni og svo ein útiæfing. Kennari: Sigurður Jónsson björgunarsveitarmaður og leiðbeinandi í rötun og ferðamennsku. Tími:   13. og 15. september 2010 frá 19:30 - 22:30 og 18. september er útiæfing sem tekur um 2 tíma. Verð: 14.000 kr. Félagar í Ferðafélagi Íslands fá 10% afslátt af námskeiðsgjaldinu.

Brynjudalur 12. september

Brynjudalur er afar fallegur og gróðursæll, umgyrtur háum fjöllum á báða vegu. Norðan dals heitir Múlafjall en sunnan Bolafell og Suðurfjall og Þrándarstaðafjall vestast. Brynjudalur státar af  ótal giljum, flúðum og fossum sem vert er að gefa gaum. Eftir dalnum miðjum rennur Brynjudalsá sem á upptök sín í Sandvatni austan Djúpadalsborga. Innst í dalbotninum heita Þrengsli. Fyrrum var búið á fjórum bæjum í Brynjudal, Skorhaga, Þrándarstöðum, Ingunnarstöðum og  Hrísakoti. Allir eru þeir nú í eyði.

Doktorsrannsókn í landafræði

Föstudaginn 3. september mun Deanne Katherine Bird  flytja fyrirlestur um doktorsrannsókn sína í landfræði: Social dimensions of volcanic hazards, risk  and emergency response procedures in southern Iceland (Eldfjallavá og viðbragðsáætlanir á Suðurlandi: Samfélagslegar hliðar).

Algjör óvissa með óvissuferð

Örfá sæti eru laus í óvissuferð FÍ sem farin verður 4. - 5. september.  Engin veit hvert verður haldið eða hvort hægt sé að komast þangað.  Fararstjóri er Sigurður Kristjánsson og hann var óviss hvenær ferðinni lyki.

Fullbókað í draugaferð FÍ í Hvítárnes

Samkvæmt könnun árið 2000 trúðu 78% Íslendinga á líf eftir dauðann og kemur niðurstaðan sjálfsagt engum á óvart. Allir hafa fengið gæsahúð yfir góðri draugasögu við réttar kringumstæður. Ferðafélag Íslands byggði sitt fyrsta sæluhús í Hvítárnesi við Hvítárvatn árið 1929 og allt frá fyrstu tíð hafa gengið magnaðar sögur af reimleikum á staðnum.

Síldarmannagötur - Dagsferð á sunnudaginn 22. ágúst

Á Sunnudaginn 22. ágúst verður gengið Síldarmannagötur.  Brottför frá Mörkinni 6 kl. 10. Göngutími 4-5 klst. Skráning og greiðsla á skrifstofu  Ferðafélagsins föstudaginn 20. ágúst Verð: 5000 / 7000. Innifalið: Rúta og fararstjórn.

Heiðmerkurdagurinn

Síðastliðinn laugardag fór fram Heiðmerkurdagur Ferðafélags barnanna og Arion banka. Dagurinn fór vel fram og skemmtilegt var að sjá bæði unga sem aldna leika sér í fótbolta, snúsnú, fara í ratleik og margt fleira.

Fossaganga á Gnúpverjaafrétti

Stórfossar Þjórsár og fossar í þverám hennar skoðaðir. 1. dagur: Lagt af stað frá Mörkinni 6 kl. 8 á laugardegi og ekið um Þjórsárdal inn á Gnúpverjaafrétt að Geldingaá Gengið niður með henni á Geldingatanga og að Gljúfurleitarfossi og síðan upp með Þjórsá að Dynk með viðkomu á Ófærutanga. Rúta bíður göngufólks við Kóngsás og ekur því í glæsilegan skála í Hólaskógi þar sem er sameiginlegur heitur matur.Vaða þarf litlar bergvatnsár og gott að hafa með sér vaðskó.

Fjölskylduferð FÍ um Laugaveginn í júlí

Amma og afi gengu Laugaveginn með Kjartani, bróður Magnúsar sumarið 2005, almenna trússferð, Kjartan var 9 ára og ferðin tókst svo vel að amma vildi endurtaka leikinn með næstu tvö barnabörnin. Það bar því vel í veiði þegar Ferðafélagið auglýsti fjölskylduferð í tengslum við Ferðafélag barnanna.  Amma skráði liðið sitt í ferðina og eftirvæntingin hlóðst jafnt og þétt upp. Krakkarnir gistu hjá ömmu og afa nóttina fyrir brottför því mæting var í Mörkina kl. 8.00 um morguninn og eins gott að ekkert færi útskeiðis. Um kvöldið var farið vandlega yfir gönguáætlun og útbúnaðarlista, enda áríðandi að ekkert vantaði. Spenna og eftirvænting magnaðist eftir því sem á leið en allir sváfu vel og vöknuðu snemma og það þurfti sko ekki að minna neinn á að taka góða skapið með í ferðina.

Hattver heillar

Hópur vaskra ferðalanga á vegum FÍ dvaldi í þrjár nætur í Hattveri um síðustu helgi við gönguferðir og náttúruskoðun. Gengið var eftir smalaleiðum um afkima hins heillandi Jökulgils og farið um Háuhveri, Kaldaklof, Dalbotn, Torfajökul og Sveinsgil. Litadýrð þessa svæðis og fjölbreytt háhitavirkni er meiri en orð fá lýst og hópurinn kannaði fáfarnar slóðir og naut náttúrunnar. Veðrið var á köflum allvott og náði slarkið vissu hámarki þegar leiðangursmenn óðu Jökulgilskvíslina einum fimm sinnum í rykk bólgna af regni á heimleið í tjaldstað. Þetta var fyrsta ferð með þessu fyrirkomulagi og fararstjórar voru Páll Ásgeir og Rósa Sigrún. Myndir úr ferðinni eru hér.