Fréttir

Óeiginlegur Laugavegur

25 manna hópur fór undir merkjum FÍ um helgina leið sem er kölluð Óeiginlegur Laugavegur. Gengið er frá Landmannalaugum í Þórsmörk en aldrei eftir hinni hefðbundnu slóð heldur leitað krókaleiða austan og vestan við hana. Þessi leið er farin á fjórum dögum líkt og hin venjubundna en er 25 kílómetrum lengri, Fararstjórar voru Páll Ásgeir og Rósa Sigrún en þáttakendur af fjórum þjóðernum alls og skemmtu sér hið besta þótt veður væri ekki alltaf slétt og fellt. Sjá myndir hér.

Landkönnun norðan Torfajökuls

Fjögurra daga landkönnunarferð með allt á bakinu. Ferðin er farin til þess að kanna og velja nýjar ferðaleiðir um fegurstu en um leið fáförnustu svæði Friðlandsins að Fjallabaki og austur á Mælifellssand. Þátttakendur verða að vera tilbúnir að kanna nýjar slóðir, finna vöð á ám og lenda í óvæntum ævintýrum. Þetta er ekki hættuför en þátttakendur þurfa að vera vanir göngumenn með góðan búnað, þ.m.t. göngutjald, svefnpoka, prímus, ljós, mat og góð föt, stafi og gps tæki.

Norður við fjölvindahaf

Ferðafélag Íslands hefur gefið út fræðsluritið Norður við fjölvindahaf sem Hallvarður Guðmundsson úr Hlöðuvik ritar.  Hallvarður (faðir Guðmundar Hallvarðssonar)  hefur í þessu riti tínt til gagnmerkan fróðleik um Hlöðuvík og æskuslóðir sinar.  Fjallað er um fyglinga og bjargsig en jafnframt um örnefni í Hælavíkurbjargi, Hælavík og á leiðinni milli Hlöðuvíkur og Hesteyrar; og eru öll nöfn sett inn á skírar loftmyndir.  Hér er þó engin nafnaþula á ferð, nöfnunum fylgja gjarnan sögur, spaugilegar eða hamrænar en aldrei hversdagslegar, sem gefa okkur nútímafólki sýn inn í lif og lífsbaráttu fyrri tíðar fólks við fjölvindahaf.  Ritið fæst á skrifstofu FÍ og kostar kr. 1900.

Dásemdir Djúpárdals

23 manna hópur gekk um helgina um Núpaheiði, Kálfafellsfjall og Fossabrekkur í Djúpárdal undir leiðsögn Páls Ásgeirs og Rósu Sigrúnar. Þessi ferð ber yfirskriftina: Á vit fossana í Djúpárdal en hápunktur hennar er að koma í Fossabrekkur og standa við fótskör Bassa, sem er stærstur fossa í Djúpá. Hann steypist fram í hamrakór þar sem einnig falla fram fossandi ferskvatnslindir úr aragrúa fossa í hrauninu. Í ferðinni eru ennfremur rannsakaðar fjölbreyttar myndir stuðlabergs, komið í eftirsóttustu hellutaksnámu sunnanlands og í lok ferðar gæða menn sér á alvöru kjötsúpu eldaðri af húsmæðrum í Fljótshverfi. Sjá myndir hér.

Hópmynd úr Þjórsárverum

Það var fríður hópur göngugarpa sem kom úr 6 daga ferð FÍ í Þjórsárver sl. sunnudag.  Gísli Már Gíslason og Þóra Ellen Þórhallsdóttir vistfræðingar voru fararstjórar. 

Áheitaganga gekk vel

Ferðafélag Mýrdælinga stóð fyrir áheitagöngu nú fyrir skömmu.  Það voru 22 sem hófu gönguna við Deildará og luku henni allir. Gangan tók um 6,5 klst. 242.700 kr söfnuðust. Ferðafélag Mýrdælinga  þakkar fyrirtækjum og einstaklingum sem hétu á gönguna, þeim sem gengu og öllum öðrum sem hjálpuðu til með einhverju móti.

30 manns í Þjórsárver með Þóru Ellen og Gísla Má

30 manns eru nú í sumarleyfisferð FÍ í Þjórsárver með Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Gísla Má Gíslasyni sem fararstjórum.  Þóra Ellen og Gísli Már eru í hópi fremstu vistfræðinga landsins og hafa bæði stundað rannsóknir í Þjórsárverum um langt skeið.  Á upphafsdegi ferðarinnar lék veðurblíðan við ferðalanga og útsýnið og náttúrufegurðin var himneskt.

Lónsöræfi - Stafafellsfjöll - Tröllakrókar

Ferðafélag Íslands býður upp á gönguferð í Lónsöræfi um verlsunarmannahelgina með Örlygi Steini Sigurjónssyni sem fararstjóra.  Örlygur er fyrrverandi formaður Íslenska alpaklúbbsins og í hópi reyndustu fjallamanna landsins.  Gönguferð um Lónsöræfi er ógleymanleg ganga um stórkostlegt landsvæði.  Örfá sæti eru laus í ferðina.

Útileguhelgi fjölskyldunnar á Þingvöllum um næstu helgi

Ferðafélag barnanna og Þingvallaþjóðgarður standa fyrir útileguhelgi fjölskyldunnar á Þingvöllum helgina 23-25.júlí. Dagskrá stendur yfir frá kl. 18 á föstudegi til kl. 15 á laugardegi. Fræðsla verður um búnað, þ.m.t bakpoka, tjald, prímusa og farið verður yfir öryggisþætti í samskiptum við náttúruna. Síðast en ekki síst verða leikir, glens og gaman og stuttar gönguferðir í boði. Fararstjórar og umsjónarmenn eru Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður og forseti FÍ og Guðrún Selma Steinarsdóttir.

Útileguhelgi Ferðafélags barnanna í Þingvallaþjóðgarði

Ferðafélag barnanna hefur sett upp útileguhelgi fjölskyldunnar á Þingvöllum helgina 23-25.júlí. Mæting er á föstudeginum kl 18.00.  Fræðsla verður um búnað, þ.m.t bakpoka, tjald, prímusa og farið verður yfir öryggisþætti í samskiptum við náttúruna. Síðast en ekki síst verða leikir, glens og gaman og stuttar gönguferðir í boði.