Fréttir

Ferðaröð FÍ og HÍ á þessu ári lokið

Laugardaginn 12. nóv. var farin síðasta gangan á þessu ári sem verið hefur í samvinnu FÍ og HÍ í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands. Heiti ferðarinnar var Tugthúsmeistarinn, strípibúllur og fyrsti dómsalurinn og leiddi prófessor Helgi Gunnlaugsson hópinn um refilstigu borgarinnar og fræddi okkur um ýmislegt sem tengist þessum málaflokki.   Gangan hófst við Stjórnarráð Íslands, sem var byggt um 1770 sem tugthús og rakti Helgi þróun refsilaga og fræddi okkur um sögu hússins. Þaðan var gengið út á Austurvöll og rifjuð upp saga bjórbannsins og strípibúlla borgarinnar.  Þá lá leiðin upp á Skólavörðustíg að gamla Hegningarhúsinnu sem tekið var í notkun 1874. Þar var okkur boðið inn og þáðu það allir þó með þeim orðum að við kæmumst væntanlega út aftur ! Guðmundur Gíslason fangelsisstjóri tók á móti hópnum í gamla bæjarþingssalnum og fræddu þeir Helgi okkur um sögu hússins og þá margvíslegu starfsemi sem verið hefur þar.   Göngunni lauk um kl 15:30 og tóku um 120 manns þátt í henni í einstaklega góðu haustveðri.      

Ferðaáætlun FÍ 2012

Ferðanefnd FÍ hefur nú skilað ferðaáætlun félagsins fyrir 2012 til lokafrágangs á skrifstofu.  Sigrún Valbergsdóttir formaður ferðanefndar segir ferðaáætlunin sé svipað uppbyggð og undanfarin ár, alltaf sé eitthvað um nýungar inn á milli sígildra ferða.

Tugthúsmeistarinn, strípibúllur og fyrsti dómsalurinn

12. nóvember verður ganga með Helga Gunnlaugssyni, prófessor við Félags-og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Gangan hefst kl. 14:00 við Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu sem einu sinni var notað sem fangageymsla. Gengið verður um miðbæinn framhjá sögufrægum öldurhúsum og endað í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg þar sem fyrsti dómsalurinn er til húsa. Stutt kynning á því sem fyrir augu ber á hverum stað.                                                 

Aðventuferð í Þórsmörk 2.-4. Desember

Helgarferð frá föstudegi til sunnudags þar sem farið verður í gönguferðir og stjörnuskoðun. Aðventustemmning með jólaföndri og kvöldvöku þar sem sagðar verða hrekkjasögur af jólasveinum. Lagt af stað frá Mörkinni 6 kl. 18.00. Verð kr. 10.000 fyrir fullorðin , 5.000kr fyrir barn, fjölskylduverð kr.20.000. Innifalið: rúta,gisting,föndurefni og fararstjórn. Þátttakendur taka með sér nesti og góðan búnað.

Blysför Ferðafélags barnanna 27. Desember

Gengið frá Nauthólmsvík að Perlunni með blys. Jólasveinar verða á svæðinu. Þátttaka ókeypis, allir velkomnir. Nánar auglýst síðar.

Viltu stofna deild í Ferðafélagi barnanna á þínu svæði ?

Markmið Ferðafélags barnanna er að hvetja börn og foreldra til að njóta útiveru og náttúru.  Jafnframt að leiðbeina um búnað, öryggismál og fleira sem þarf að hafa í huga þegar ferðast er um náttúru landsins.  Ekki síst að leika sér og hafa gaman saman.  Ef þú hefur áhuga á að stofna deild í Ferðafélagi barnanna á þínu svæði og standa fyrir skemmtilegum fjölskyldugöngu á þínu svæði þá veitir skrifstofa FÍ aðstoð.

Ferðafélag barnanna

Ferðafélag barnanna var stofnað árið 2009 að fyrirmynd norska Ferðafélagsins DNT. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að hlúa að heilbrigði og virkni allra barna og fjölskyldna og með stofnun Ferðafélags barnanna leggur Ferðafélag Íslands sitt lóð á vogarskálarnar. Með þessu nýja félagi verður lögð áhersla á að bjóða upp á ferðir og uppákomur á forsendum barnanna með það fyrir augum að víkka sjóndeildarhring þeirra og upplýsa um heilbrigða lífshætti úti í náttúrunni.

VÍS - Einn af aðalstyrktaraðilum FÍ og Ferðafélags barnanna

VÍS og Ferðafélag Íslands, FÍ, hafa gert með sér samstarfssamning fyrir næstu þrjú ár eða til ársins 2014. VÍS verður með þessum samningi einn af aðalstyrktaraðilum FÍ og einn af bakhjörlum Ferðafélags barnanna hjá FÍ.

Hvers virði er náttúran? - Með fróðleik í fararnesti – gönguferðir Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands

Með fróðleik í fararnesti – gönguferðir Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands Á aldarafmæli Háskóla Íslands taka skólinn og Ferðafélag Íslands höndum saman og standa fyrir gönguferðum reglulega yfir afmælisárið. Reynsla og þekking leiðsögumanna ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Gönguferðirnar verða 12 talsins og taka hver um 2 klukkustundir. Markmið samstarfs Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands er að færa almenningi afmælisgjöf sem felst í fræðslu og hollri útivist. Um leið er vakin athygli og áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands. Þátttaka er ókeypis, allir velkomnir.  Ekki þarf að skrá sig fyrirfram Hvers virði er náttúran? 29. október mun Daði Már Kristófersson, dósent í náttúruauðlindahagfræði við Hagfræðideild Háskóla Íslands, ganga um Heiðmörkina og tala um verðmæti náttúrunnar. Gangan hefst við Elliðavatnsbæinn kl. 14:00.

Framtíðarskipulag Þingvalla

Nú er lokið hugmyndaleitinni sem efnt var til í sumar. Alls bárust 102 tillögur frá 88 höfundum og verða þær allar til sýnis í Tjarnarsal (kjallara) Ráðhússins í Reykjavík og verður sýningin opnuð kl. 16 þriðjudaginn 18. október. Hún verður opin almenningi til sunnudagsins 23. október. Dómnefndin hefur lokið störfum og greinir frá niðurstöðum sínum og hvaða fimm tilögur hljóta viðurkenningu föstudaginn 21. október kl. 15:00 í Tjarnarsalnum og eru allir velkomnir á þann fund. Laugardaginn 22. október kl. 13.30 verður síðan á sama stað haldið málþing - svokölluð Hugmyndasmiðja sem er öllum opin. Þar verða tillögur hugmyndaleitarinnar ræddar enn frekar en auk formanns dómnefndar, Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra, munu þau Lára Magnúsardóttir, sagnfræðingur, Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis og Páll Ásgeir Ásgeirsson, rithöfundur og leiðsögumaður, flytja stutt erindi um sögu og menningu á Þingvöllum, tengsl Alþingis og Þingvalla og náttúru Þingvalla og upplifun gesta. Að loknum erindunum skipa fundarmenn sér í hópa og ræða viðfangsefnin nánar og stýrir Árni Geirsson hjá ráðgjafarfyrirtækinu Alta umræðum. Málþingið stendur í 2-3 klukkutíma. Vertu velkominn í Tjarnarsalinn til þessara viðburða. Ólafur Örn HaraldssonÞjóðgarðsvörður Þingvöllum