Fréttir

Ferðafélag Íslands birtir áhættumat á vinsælum gönguleiðum í samstarfi við VÍS

Áhættumat sem Ferðafélag Íslands  í samstarfi við VÍS hefur unnið að í vetur fyrir ferðir félagsins og aðrar vinsælar leiðir var gert ferðaþjónustuaðilum og einstaklingum aðgengilegt í dag á heimasíðu félagsins, þeim að endurgjaldslausu. Er m.a. hægt að skoða áhættumat fyrir Laugaveginn, Fimmvörðuháls og fjölmargar gönguleiðir á Esjunni.

Þingvallaþjóðgarður frá vatni og um fáfarnar slóðir

Gengið er frá Vellankötlu um skógræktarreit og fjárhelli. Genginn verður hluti af gamalli þjóðleið, farið um gömul bæjarstæði og yfir gróin hraun. Um 4 klst. Ferðin er hluti af samstarfsverkefni HÍ og FÍ.

Fuglaskoðunarferð Ferðafélagsins Norðurslóðar

Fuglaskoðunarferð við Víkingavatn Ferðafélagið Norðurslóð efnir til fuglaskoðunarferðar við Víkingavatn í Kelduhverfi föstudagskvöldið 24. maí nk. Gengið verður með vatninu að vestan og hugað að fuglalífi undir góðri leiðsögn Aðalsteins Arnar Snæþórssonar líffræðings. Víkingavatn er eitt fuglaauðugasta vatn landsins og flestar tegundir vatnafugla verpa við það. Má þar nefna flórgoðann, en Víkingavatn er eitt helsta vígi hans hér á landi. Búast má við að um 35 tegundir sjáist í ferðinnni. Mæting er við bæinn Víkingavatn I kl. 20:00. Þátttakendur eru beðnir um að hafa með sér sjónauka. Þetta er auðveld ganga á sléttlendi og ætti að henta flestum. Húsvíkingar eru sérstaklega hvattir til að mæta þar sem ekki er langt að fara. Rétt er að benda fólki á að koma á góðum skófatnaði því vorið hefur verið heldur seint á ferðinni, ísinn nýfarinn af vatninu og gæti verið bleyta á leiðinni.

Söguslóðir Háskóla Íslands - laugardagur 25. maí

25. maí, laugardagur, Fararstjóri: Guðmundur Hálfdanarson., Brottför: Kl. 11 frá Alþingishúsinu við Austurvöll. Guðmundur, sem er prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, leiðir gönguferð um söguslóðir Háskóla Íslands fyrstu 50 árin. Farið verður á staði þar sem Háskóli Íslands starfaði og ráðgert var á fyrstu árum hans að ný háskólabygging myndi rísa. Ferðin er hluti af samstarfsverkefni HÍ og FÍ. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.  

Fjall mánaðarins í maí er Þríhyrningur 6 - 8 km.

Fimmta ganga verkefnisins Eitt fjall á mánuði 2013 á vegum Ferðafélags Íslands verður farin laugardaginn 25. maí.

Sumarleyfisferðir á árbókarsvæðinu 2013 með Ferðafélaginu Norðurslóð

Árbók Ferðafélags Íslands fjallar um Norð Austurland, Vopnafjörð, Strönd, Langanes, Þistilfjörð, Sléttu, Núpasveit, Öxarfjörð og Hólsfjöll.  Ferðafélagið Norðurslóð býður upp á tvær áhugaverðar ferðir á árbókarsvæðinu sem vert er að kynna sér

Bakskóli FÍ á Mosfell 18. maí

Bakskóli FÍ gengur á Mosfell í Mosfelldal á morgun laugardag kl. 10.30. Lagt er af stað frá bílastæðinu við Mosfellskirkju. Þátttakendur veri vel búnir, í góðum gönguskóm, göngufatnaði og með húfu og vettlinga. Fararstjóri er Steinunn Leifsdóttir 865-4364

Málþing tileinkað minningu Guðmundar Kjartanssonar

BÚRFELLSHRAUN   Þriðjudaginn 21. maí 2013 verður haldið í Náttúrufræðistofnun Íslands við Urriðaholt í Garðabæ, málþing tileinkað minningu Guðmundar Kjartanssonar jarðfræðings en síðasta rannsóknarverkefni hans var aldursgreining og kortlagning Búrfellshrauns sem er samheiti á mörgum hraunum í Garðabæ og Hafnarfirði og runnið hafa frá Búrfellsgíg til sjávar. Guðmundur lést árið 1972.   Málþingið verður frá kl. 13.15 til 16.15 og að því loknu verður farið að Bala, staðar á bæjamörkum Garðabæjar og Hafnarfjarðar og neðan Hrafnistu, þar sem bæjarstjórar Garðabæjar og Hafnarfjarðar, kynna sameiginlegt verkefni.   Að þessu málþingi standa auk Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar, Náttúrufræðistofnun Íslands og félagið Hraunavinir.   Dagskráin verður þannig:   Búrfellshraun og eldstöðvakerfi Krýsuvíkur: Kristján Jónasson jarðfræðingur   Guðmundur Kjartansson og störf hans: Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur   Faðir minn, Guðmundur Kjartansson: Solveig Guðmundsdóttir   Örnefni í hraunalandslagi (Búrfellshraun) – hvaða máli skipta þau?: Reynir Ingibjartsson og Jónatan Garðarsson   Fornminjar í Búrfellshrauni: Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur   Verndun Búrfellshrauns: Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri Garðabæjar   Ógnir við hraun: Sigmundur Einarsson jarðfræðingur   Málþingsstjóri: Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi ráðherra.   Aðgangur verður ókeypis en æskilegt að skrá sig hjá Náttúrufræðistofnun: sími 5900500, netfang: ni@ni.is

Árbók FÍ 2013 komin út - Norðausturland - Hjörleifur Guttormsson höfundur

Út er komin árbók Ferðafélags Íslands 2013. Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur skrifar um Vopnafjörð, Langanesströnd, Langanes, Þistilfjörð, Melrakkasléttu, Núpasveit, Öxarfjörð og Hólsfjöll, svæði sem að flatarmáli er um 7% af Íslandi. Fallegar ljósmyndir sem höfundur tekur skreyta bókina auk þess sem nákvæm kort eru af svæðunum sem fjallað er um. Daníel Bergmann annaðist umbrot á bókinni.

Barnavagnavika FÍ - dagskrá

Barnavagnavika FÍ 13. - 17. maí. Gönguferðir með barnavagna og kerrur alla daga vikunnar kl. 12.00Hressileg ganga fyrir mömmur og pabba, afa og ömmur með léttum æfingum, teygjum og slökun. ca. 60 - 75 mínútur. Mætið í góðum gönguskóm og helst göngufatnaði. Gengið er eftir göngustígum borgarinnar, sjá dagskrá hér neðar. Þátttaka ókeypis og allir velkomnir.  Fararstjóri: Auður Kjartansdóttir Brottför er kl 12:00 alla daga: Mánudag: Mæting við Perluna ÖskjuhlíðÞiðjudagur: Mæting við Gerðasafn í KópavogiMiðvikudag: Mæting við ÁrbæjarlaugFimmtudag: Mæting við NauthólFöstudag Mæting við Húsdýragarðinn Laugardal.