Fréttir

Á fjallatindum á rafbókarformi

Bókin Á fjallatindum eftir Bjarna E. Guðleifsson sem Bókaútgáfan Hólar gaf út árið 2009 er nú komin út á rafbókarformi. Þar segir frá gönguferðum á hæstu tinda í hverri sýslu landsins. Alls er lýst þarna ferðum á 28 tinda. Rafbókin býður upp á að menn geti skoðað bókina í tölvu, spjaldtölvu og jafnvel í síma og með því séð kort af viðkomandi fjalli, auk ljósmynda og gönguleiðalýsingu og aukinheldur lesið um jarðfræði þess.  Þá er þarna að finna ýmsan annan fróðleik um hvert fjall. Þannig geta menn léttilega haft rafbókina með sér í gönguferðir þegar gengið er í fótspor höfundar og haft af henni bæði gagn og gaman.   Pappírsútgáfan af bókinni hefur verið uppseld um nokkurra ára skeið, en mikil eftirspurn hefur verið eftir henni og því ættu margir að kætast við þessi tíðindi.   Hægt er að kaupa rafbókina með því að fara inn á www.skinna.is  en hún kostar 3.980 krónur.

Undirbúningur fyrir Hvannadalshnúk um hvítasunnuhelgina

Ferðafélag Íslands stendur fyrir sinni árlegu ferð á Hvannadalshnúk um Hvítasunnuhelgina.  Nú er boðið upp á undirbúningsferðir fyrir Hvannadalshnúk, alls 5 fjallgöngur í apríl og mai.

Bættar samgöngur í Þórsmörk

Reykjavík Excursions / Kynnisferðir í samstarfi við ferðaþjónustuaðila í Þórsmörk, hafa ákveðið að lengja áætlun rútuferða í Þórsmörk nú í ár. Þetta er gert til að mæta aukinni eftirspurn eftir ferðum í Þórsmörk á vorin og haustin og auðvelda ferðamönnum að komast í Mörkina með öruggum hætti.   Áætlunarferðir í Þórsmörk hefjast því 2. maí í vor og reglulegar ferðir verða farnar allt þar til í lok október í haust.  Með þessari breytingu er tímabil áætlunarferða í Þórsmörk lengt um einn og hálfan mánuð bæði í vor og haust frá því sem verið hefur.    Farnar verða ferðir einu sinni á dag í maí, fjóra daga vikunnar eða fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga samkvæmt áætlun RE14 sem leggur af stað frá BSÍ kl 9 að morgni dags. Daglegar ferðir hefjast svo 13. júní þar sem farnar verða ferðir tvisvar sinnum á dag milli Húsadals í Þórsmörk og Reykjavíkur og verður sú áætlun í gangi fram til 15. september. Frá 16. september til loka október verður ekið eins og í maí eða fjóra daga vikunnar. Ekið er á milli Húsadals, Langadals og Bása og geta ferðamenn farið úr eða stigið um borð í rúturnar á öllum þessum stöðum og haldið ferð sinni áfram með áætlunarferðinni. Bóka þarf í ferðirnar á vorin og haustin með minnst 12 tíma fyrirvara en hægt er að mæta beint í rúturnar á öðrum tímabilum.   Þessu til viðbótar verður boðið upp á kvöldferðir fjóra daga vikunnar eða þriðjudaga, fimmtudaga, föstudaga og sunnudaga á tímabilinu 13. júní – 31. ágúst í sumar.   Hægt verður að taka rútuna alla leið úr Reykjavík eða stíga um borð á ýmsum stöðum á leiðinni s.s. á Hvolsvelli og við Seljalandsfoss. Nánari upplýsingar um tímaáætlun, verð og miðabókanir er að finna á vefsíðu á vefsíðu Reykjavík Excursions www.re.is.  

Elliðatindar 1. júní

Vegna aurbleytu hefur ferð FÍ á Elliðatinda verið frestað til 1. júní nk.

Skyggnst í iður jarðar - Eyjafjallajökull nk. laugardag

Ekið inn á Þórsmerkurleið og gengið upp vestan við Grýtutind. Litlaheiði gengin inn undir Skerin og þeim fylgt upp á jökul. Svo er stefnt á Goðastein en þaðan er góð yfirsýn um jökulfyllta gígskálina og eldstöðina sem rýkur úr. Ef aðstæður leyfa er gengið fram á Vestari Skolt og litið niður hrikalegan Gígjökulinn. Jöklabúnaður nauðsynlegur. 17 km. Hækkun 1500 m. 10-11 klst. á göngu.

Aprílgabb - Íslendingum meinaður aðgangur að helstu náttúruperlum landsins

Íslendingum verður bannað að skoða margar helstu náttúruperlur landsins í sumar til að vernda þær fyrir ágangi. Bannið gildir ekki um erlenda ferðamenn þar sem talið er að það hefði í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna. Meðal vinsælla ferðamannastaða, sem eingöngu verða opnir erlendum ferðamönnum í júní, júlí og ágúst, eru Gullfoss og Geysir, Almannagjá, Seljalandsfoss og Landmannalaugar. Forstjóri Umhverfisstofnunar, Kristín Linda Árnadóttir, segir lokunina neyðarúrræði. „Eftir síðasta sumar varð okkur ljóst að íslensk náttúra þolir ekki allan þennan ágang ferðamanna þannig að við sjáum ekki önnur úrræði í dag heldur en að takmarka umferð ferðamanna verulega næsta sumar um helstu náttúruperlur landsins,“ segir Kristín. Hún segir ástæðuna fyrir því að þessar lokanir taki eingöngu til Íslendinga en ekki útlendinga vera að erlendir ferðamenn hafi nú þegar keypt sér ferðir til landsins. „Og við verðum auðvitað að taka tillit til þeirra, á meðan flestir Íslendingar hafa séð þessar náttúruperlur eða hafa hina níu mánuði ársins til að fara þangað.“ Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, segir að þeim lítist mjög illa á þessar aðgerðir og þau séu auðvitað ekki hrifin af því að það þurfi að takmarka aðgang Íslendinga að íslenskri náttúru. „En í ljósi aðstæðna tökum við undir með Umhverfisstofnun að þetta eru nauðsynlegar aðgerðir.“ Forsvarsmenn Ferðafélags Íslands eru afar ósáttir og hafa boðað til mótmæla fyrir utan Alþingishúsið klukkan átta í kvöld. Þar ætla þeir að reisa tjaldbúðir og nú seinnipartinn var fólk þegar farið að tjalda. „Við hvetja alla okkar félagsmenn og alla innlenda ferðamenn, alla Íslendinga sem hafa áhuga á að ferðast og sækja þessi svæði heim að fjölmenna niður á Austurvöll í kvöld,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.

120 manns á kynningarfundi á Bakskóla FÍ

Kynningarfundur Bakskóla Ferðafélag Íslands var haldinn í sal félagsins Mörkinni 6 í kvöld. Yfir 120 manns mættu á fundinn. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ sem er umsjónarmaður með Bakskólanum kynnti verkefnið.  Bakskólinn hefst með gönguferð 4. apríl og verður boðið upp á þrjár gönguferðir í viku með liðkandi og styrkjandi æfingum.

Heimildarmynd um göngu 52 fjalla á Heiðarhorn

Starf 52 fjalla hóps Ferðafélags Íslands gengur vel. Þátttakendur hafa stundað fjallgöngur af miklum krafti og hafa oft á tíðum verið nokkuð heppnir með veður þótt auðvitað sé það ekki einhlítt. Um síðustu helgi gekk hópurinn á Heiðarhorn í Skarðsheiðinni sem er 1050 metra hátt og er hæsta fjall sem hópurinn hefur tekist á við fram að þessu. Gangan gekk sérlega vel og veður var hagstætt og mikið stuð á hópnum. Hér er örstutt myndband sem fararstjórar gerðu um þennan leiðangur.

Ný umhverfisstefna FÍ samþykkt á aðalfundi félagsins

Á aðalfundi FÍ 21. mars sl. var samþykkt ný umhverfisstefna félagsins. Ferðafélags Íslands hefur í starfi sínu í 85 ár tekið afstöðu með náttúru landsins eins og fram kemur í lögum og markmiðum félagsins en í lögum félagsins segir meðal annars:  Ferðafélag Íslands skal stuðla að góðri umgengni ferðamanna og vernd náttúru landsins, m.a. með samstarfi við umhverfis- og náttúruverndaraðila.

Málstefna um Þingvelli 3. apríl

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Suðurlands standa sameiginlega fyrir málstofu um Þingvelli miðvikudaginn 3. apríl 2013. Málstofan verður í fundarsal Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6 í Reykjavík, hefst kl. 14:00 og lýkur kl. 17:00. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.