Vonskuveður seinnipartinn og í kvöld
26.01.2013
Þeir sem ætla til fjalla í dag ættu að hafa í huga að veður mun versna seinnipartinn og með kvöldinu.
Veður fer ört vaxandi í dag á landinu í dag, einkum síðdegis og í kvöld þegar austan og norðaustan hvassviðri eða stormur mun ganga yfir mest allt landið. Hvessa mun fyrst við suðurströndina og fyrir hádegi má búast við hvössum vindhviðum undir Eyjafjöllum.
Í kvöld hvessir svo enn frekar Suðaustanlands og fer þá að rigna. Suðaustan stormur, 18-25 m/s verður þar í kvöld og nótt og mjög hvassar vindhviður undir Vatnajökli. Á Suðvesturlandi hefur snjóað talsvert og bendir Vegagerðin á að skyggni og færð geti því spillst fljótt þegar fer að hvessa síðdegis. Ísingarhætta er til staðar, einkum á sunnanverðu landinu þar sem léttir til í kvöld og nótt.
Á höfuðborgarsvæðinu verður hæg norðlæg eða breytileg átt og dálítil snjókoma fram eftir morgni en vaxandi austanátt í dag, 8-15 m/s síðdegis og upp undir 20 m/s í kvöld. Í nótt hvessir heldur og verður vindhraði 15-23 m/s undir morgun. Síðdegis á sunnudag fer að lægja. Skýjað verður með köflum og hiti um frostmark.
Um landið norðanvert má gera ráð fyrir snjókomu eða éljum og skafrenningi með slæmu skyggni, einkum á fjallvegum. Á Austfjörðum er slydda eða rigning á láglendi en snjókoma til fjalla síðdegis.