Fréttir

Myndakvöld 17 október

Fyrsta myndakvöld að loknu sumri verður miðvikudaginn 17. október kl. 20 í sal FÍ Mörkinni 6.  Þá verða sýndar myndir úr nokkrum ferðum sumarsins, m.a. af Fjallabaki, Lónsöræfum og Hornströndum. Umsjón Páll Ásgeir Ásgeirsson. Aðgangseyrir kr. 500, innifalið kaffi og kleinur.

FÍ og HÍ - Með fróðleik í fararnesti - Söguslóðir ljósmæðra í 250 ár

FÍ og HÍ Með fróðleik í fararnesti - Söguslóðir ljósmæðra í 250 ár Helga Gottfreðsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, leiðir gönguferð um slóðir 250 ára sögu ljósmæðra. Gengið verður frá Skólavörðustíg 11 og komið við á þremur til fjórum áfangastöðum í miðbæ Reykjavíkur sem tengjast sögu ljósmæðra. Lagt verður af stað frá Skólavörðustíg 11, kl. 11. Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands halda áfram samstarfi sínu um gönguferðir sem efnt var til í tilefni aldarafmælis skólans 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum og nú hjólaferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Ferðin er sú fimmta á þessu ári og og tekur hver um tvær klukkustundir. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir. Markmiðið með samstarfinu er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskólans og Ferðafélagsins.

Vetraropnunartími skrifstofu

Frá 1. október er opnunartími skrifstofu Ferðafélags Íslands frá kl. 12-17 alla virka daga. 

Heit laug að hausti

Það má vel klæða sig úr hverri spjör og stökkva ofan í heitan læk þó að það sé komið haust. Nákvæmlega það gerðu fjörutíu hugrakkar sálir í villibaðsferð Ferðafélags barnanna um þarliðna helgi.

Nýr Baldvinsskáli Ferðafélags Íslands á Fimmvörðuhálsi

Nýr Baldvinsskáli Ferðafélags Íslands var fluttur á Fimmvörðuháls um sl. helgi. Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ segir að með nýjum skála vilji FÍ tryggja öryggi ferðamanna á Fimmvörðuhásli og bæta alla aðstöðu þeirra sem gangi leiðina yfir Fimmvörðuháls. Þessir flutningar voru langt og strangt verkefni,“ segir Stefán Helgason húsasmiður í Vorsabæ í Flóa. Nýr skáli Ferðafélags Íslands á Fimmvörðuhálsi var um helgina fluttur frá Skógum undir Eyjafjöllum upp undir hábungu hálsins. Þar stóð fyrir Baldvinsskáli, sem FÍ eignaðist fyrir nokkrum árum. Sú bygging verður tekin ofan, enda orðin feyskin. Nýi skálinn er líkt og hinn fyrri A-laga bygging og er 63 fermetrar að flatarmáli. Með þessu hyggst Ferðafélag Íslands koma enn betur til móts við þann mikla fjölda fólks sem gengur yfir Fimmvörðuháls, en fáar leiðir njóta viðlíka vinsælda meðal útivistarfólks. Þúsundir fara um þessar slóðir á hverju ári og þar eru ummerki eldsumbrotanna vorið 2010 mikið aðdráttarafl. Skálinn var fluttur upp á hálsinn með vögnum og vinnuvélum.

Tilboð til félagsmanna FÍ


Fjall mánaðarins í september er Vestursúla í Botnsúlum.

Níunda  ganga verkefnisins Eitt fjall á mánuði 2012 á vegum Ferðafélags Íslands verður  farin laugardaginn 29. september.

Esjan Endilöng 30. september

Fararstjórar Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir30. september, sunnudagur Brottför kl 8.00 frá Mörkinni 6. Göngutími ca 9 klst. Ekið upp að Skarðsá undir Móskarðshnjúkum. Gengið er upp á hnjúkana, fyrist á þann hæsta og síðan haldið eftri þeim til vesturs um Laufskörð og yfir hina eiginlegu Esju. Síðan er haldið eftir brúnum Esjunnar með viðkomu á Hátindi og Hábungu og loks haldið niður Kerhólakamb og göngunni lýkur við Esjuberg. Þangað sækir rúta hópinn.Verð: 6.000 / 8.000 - Innifalið: Rúta og fararstjórn.

Köldulaugargil, Hagavíkurlaugar og Stangarháls

Ferðafélag Íslands og Landvernd bjóða upp á áhugaverða ferð í Köldulaugagil, Hagavíkurlaugar og Stangarháls laugardaginn 29. september.

Haustferð Hornstrandafara 22. september 2012

Haustferð Hornstrandafara  22. september 2012Að þessu sinni varð Selvogsgata fyrir valinu. Þægileg og hæfilega löng leið. Áætlaður göngutími u.þ.b. 5 klst.Brottför frá F.Í., Mörkinni 6, kl. 09:30.Ekið að upphafsstað göngunnar við Grindaskörð..Að göngu lokinni verður ekið með hópinn að Hótel Örk í Hveragerði þar sem bíða sundlaug og heitir pottar, veislumatur og skemmtileg kvöldstund.Sundföt og önnur föt má geyma í rútunni.Verð kr. 6000.–, innheimt í rútunni, enginn posi, best að reiða fram nákvæmlega þessa upphæð.Dragið nú fram allt skemmtilegt sem þið eigið í fórum ykkar og leyfið okkur hinum að njóta.   Guðmundur Hallvarðsson spilar undir fjöldasöng. Munið að skrá ykkur fyrir 18. september hjá einhverjum neðantalinna:Eiríkur 849-9895, eiriktho@hi.isEygló 895-4645, eyglo@yggdrasill.isMaggi 895-6833, maggikonn@hive.isSkrifstofa F.Í. 5682533, fi@fi.is Gísli Már gmg@ormstunga.is eða með því að svara þessum pósti með „Reply“ Holl lesning til undirbúnings er: Ólafur Þorvaldsson. Selvogsgata og Krýsuvíkurleiðir. Ferðafélag Íslands. Reykjavík 1999. (Sjöundi titill í ritröðinni Fræðslurit Ferðafélags Íslands). (Fæst á skrifstofu F.Í.)