Fréttir

Kúnstir náttúrunnar - frábær geisladiskur

,,Þetta er alveg frábær geisladiskur og maður kemst í þvílíkt ferða- og fjallaskap," segir Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ um nýjan geisladisk sem kominn er út með lögum og ljóðum Sigurðar Þórarinssonar sem FÍ ásamt Jöklarannsóknarfélaginu og Hinu íslenska náttúrufræðifélagi hafa gefið út í tilefni af aldarmæli Sigurðar sl. ár.

Aldarslagur Sigurðar Þórarinssonar - Kúnstir náttúrunnar nýr geilsadiskur með lögum og ljóðum Sigurðar

Ferðafélag Íslands, Hið íslenska náttúrufræðafélag og Jöklarannsóknafélag Íslands hafa nýverið gefið út á diskum safn söngva og svipmynda undir heitinu Kúnstir náttúrunnar.  Eins og yfirskriftin Aldarslagur Sigurðar Þórarinssonar gefur til kynna er útgáfan helguð aldarafmæli Sigurðar sem var á síðasta ári.    Í albúminu eru tveir diskar (CD og DVD) og 48 síðna myndskrýddur bæklingur með öllum söngtextunum ásamt skýringum. Ítarlegan formála um Sigurð Þórarinsson ritar nafni hans Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur.  Í bæklingnum er einnig yfirlit um helstu viðburði í lífi Sigurðar og nokkrar línur um hann sem söngvísnasmið.   Á CD-disknum eru 32 söngvar við þýdda og frumsamda texta eftir Sigurð. Söngvarnir eru af þrennum toga: Fjórtán þeir fyrstu komu út 1982 á vínilplötunni ’Eins og gengur’ sem ekki er lengur fáanleg. Þá eru níu söngvar sem fluttir voru á 60 ára afmælishátíð Ferðafélagsins 1987 og loks níu söngvar sem hljóðritaðir voru í nóvember á síðasta ári.       Á DVD-disknum eru þrjú myndskeið: 1) heimildarmyndin ’Rauða skotthúfan’ sem fjallar í máli og myndum um vísindastörf Sigurðar. Kynnir er Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur; 2) þátturinn ’Svo endar hver sitt ævisvall’ með átta Bellmanssöngvum, og loks 3) lítill kabarett í leikstjórn Eddu Þórarinsdóttur, ’Sigurðar vísur Þórarinssonar’ með sjö lögum við texta Sigurðar.  – Kvikmyndin og þættirnir tveir voru sýndir í Sjónvarpinu á árum áður.   Í útgáfustjórn voru Gunnar Guttormsson, Halldór Ólafsson og Páll Einarsson. Með stjórninni störfuðu þau Árni Björnsson og Edda Þórarinsdóttir.  –  Um hönnun og umbrot sá Auglýsingastofa Ernst Backman, en albúmið og diskarnir voru framleiddir hjá þýska fyrirtækinu Hofa.  –  Auk félaganna sem að útgáfunni standa styrktu nokkrir aðilar útgáfuna með fjárframlögum og aðstoð í formi vinnuframlags.   Albúmið er ekki enn til sölu á almennum markaði.  Félögin sem að útgáfunni standa sjá um að dreifa albúminu til félagsmanna og áhugafólks. Verðið hjá þeim er 4 þús. kr.  – Ferðafélag Íslands tekur auk þess á móti beiðnum aðila sem vilja hafa það til sölu.

Víknaslóðir hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs

Í Ferðaáæltun Ferðafélags Íslandseru kynntar ferðir frá flestum deildum FÍ meðal annars ferðir á Víknaslóðir með Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs.  Í áætluninni er dagsetningar á þeim ferðum rangar og Fer'ðafélag Fljótsdalshéraðs hefur sent inn réttar dagsetningar

Snjókorn falla...

Vaskur hópur barna og fullorðinna lagðist í snjóhúsagerð í Heiðmörkinni fyrir nokkru og skildi þar eftir sig snjóhús og snjókalla af öllum stærðum og gerðum.

Snjókorn falla...

Snjóhús og snjókarlar af öllum stærðum og gerðum lífguðu upp á Heiðmörkina þegar Ferðafélag barnanna hafði lokið sér af í stórskemmtilegri snjóhúsaferð í fjölskyldurjóðrinu Furulundi fyrir nokkru.

Námskeið: Skyndihjálp og óhöpp í óbyggðum - Laus pláss

Námskeið: Skyndihjálp og óhöpp í óbyggðum 19., 21. og 26. febrúar Leiðbeinendur: Ævar og Örvar Aðalsteinssynir. Kennt: Kl. 18-22 í sal FÍ, Mörkinni 6. Verklegt námskeið fyrir göngufólk í skyndihjálp og viðbrögðum við óhöppum í óbyggðum. Eftir stutta upprifjun á grunnatriðum skyndihjálpar er lögð aðaláhersla á raunhæf verkefni og fræðslu og frásagnir af slysum á Íslandi og þannig reynt að æfa viðbrögð við óhöppum. Námskeiðið endar á verklegri útiæfingu þar sem björgunarfólkið þarf að fást við stórslasaða sjúklinga. Verð: 12.000/15.000. Innifalið: Kennsla og verklegar æfingar.  

Myndakvöld 20. febrúar – Náttúruperlur V-Skaftafellssýslu

Myndakvöld FÍ verður miðvikudagskvöldið 20. febrúar kl 20.00 í sal FÍ Mörkinni 6. Gísli Már Gíslason, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Vigfús Gunnar Gíslason sýna myndir úr 4 daga göngu FÍ í júlí síðastlinum um náttúruperlur í Vestur-Skaftafellssýslu. Gengið var meðfram Hólmsá, frá Hrífunesi í Skaftártungu um Álftaversafrétt og Skaftártunguheiðar, með Hómsárlónum í Strútslaug sunnan Torfajökuls. Aðgangseyrir 500 kr. Kaffi og kleinur í hléi.

Skrifstofa lokuð í dag 6. febrúar

Skrifstofa FÍ lokuð í dag miðvikudaginn 6. febrúar vegna starfsdags.

Fjall mánaðarins í febrúar er Ingólfsfjall 551 m

Önnur ganga verkefnisins Eitt fjall á mánuði 2013 á vegum Ferðafélags Íslands verður farin laugardaginn 23. febrúar.

Góð þátttaka í 52 fjöllum

Fjallgönguverkefnið 52 fjöll eða Eitt fjall á viku er nú komið í fullan gang. Þátttaka er að vanda mjög góð og hafa tæplega 100 manns skráð sig til þátttöku á árinu 2013. Hópurinn hefur nú þegar lagt fjögur fjöll að velli -eða að fótum sér og umsjónarmaður verkefnisins, Páll Ásgeir Ásgeirsson segir að hópurinn sé frískur, skemmtilegur og óðfús að takast á við þá skuldbindingu sem felst í verkefninu.Fram að þessu hefur veður verið fremur hagstætt í fjallgöngum hópsins en ef fer að vonum mun hópurinn fá æfingu í að takast á við öll tilbrigði veðurs sem íslensk náttúra getur boðið upp á.Þar sem skráningu er lokið munu leiðbeiningar um næstu göngur ekki birtast hér á síðunni heldur verða sendar hópnum í tölvupósti.