Fréttir

52 fjöll gera myndband í Meitilsgöngu

Þetta líflega myndband var tekið í göngu 52 fjalla hópsins á Stóra-Meitil laugardag 2. mars s.l. Starf 52 fjalla hópsins hefur gengið sérlega vel það sem af er vetrar þar sem harðduglegur hópur sækir verkefnið af miklum krafti.Daginn sem farið var á Stóra-Meitil var veður allgott, bjart og svalt veður og þokkalegt skyggni yfir nágrennið þar sem göngumenn gátu borið kennsl á ýmis fjöll sem þegar hafa verið lögð að velli og ekki síður fjöll sem bíða göngu á næstu vikum.Til þess að leggja inn á söfnunarreikning hæðarmetra var ákveðið á bakaleið að ganga einnig á Litla-Meitil. Það reyndist vera skemmtileg gönguleið og varð gönguferð laugardagsins því 10.5 km að lengd og uppsöfnuð hækkun nálægt 500 metrum.Á leið inn með Meitlum að austan var að sjálfsögðu staldrað við skógarreitinn fallega sem Einar heitinn Ólafsson gróðursetti og hlúði að en Einar var mikill Ferðafélagsmaður og lagði mikið af mörkum til uppbyggingar félagsins.Í þessari göngu voru rúmlega 80 þátttakendur. Það var Páll Ásgeir Ásgeirsson stjórnandi verkefnisins sem tók myndir og setti saman myndbandið.

Aðalfundur Ferðafélags Norðurslóðar

Aðalfundur Ferðafélagsins Norðurslóðar verður haldinn í skólahúsinu á Kópaskeri laugardaginn 2. mars n.k. Fyrir fundinn, eða kl. 15:00 verður farið í stutta göngu frá skólahúsinu meðfram ströndinni við Kópasker, og síðan hefst fundurinn kl. 16:00.   Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf, svo sem skýrsla stjórnar og reikningar, inntaka nýrra félaga, kosningar og önnur mál. Þá verða sýndar nokkrar myndir úr göngum síðasta árs og ferðaáætlun Norðurslóðar 2013 verður kynnt.  Gaman væri ef fólk hefðu með sér myndir úr gönguferðum félagsins.Eftir fundinn fá fundargestir leiðsögn um Skjálftasetrið.Fundurinn er öllum opinn. Fólki er velkomið að koma og kynna sér félagið.Ferðafélagið Norðurslóð var stofnað 21. apríl 2009. Félagssvæðið er úr Kelduhverfi í vestri að Bakkafirði í austri. Félagið vill stuðla að ferðalögum um starfssvæði sitt og greiða fyrir þeim. Félagið er sjálfstæð deild í Ferðafélagi Íslands, sem þýðir að félagsmenn njóta allra sömu réttinda og félagar FÍ. Félagsmenn FÍ njóta umtalsverðra fríðinda. Má þar nefna Árbók félagsins sem er innifalin í árgjaldi. Afslátt í ferðir félagsins, afslátt í gistingu í skála félagsins sem og í skála ferðafélaga á norðurlöndum, afslátt í fjölda verslana og fróðlegar upplýsingar um ferðalög.

Kúnstir náttúrunnar - frábær geisladiskur

,,Þetta er alveg frábær geisladiskur og maður kemst í þvílíkt ferða- og fjallaskap," segir Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ um nýjan geisladisk sem kominn er út með lögum og ljóðum Sigurðar Þórarinssonar sem FÍ ásamt Jöklarannsóknarfélaginu og Hinu íslenska náttúrufræðifélagi hafa gefið út í tilefni af aldarmæli Sigurðar sl. ár.

Aldarslagur Sigurðar Þórarinssonar - Kúnstir náttúrunnar nýr geilsadiskur með lögum og ljóðum Sigurðar

Ferðafélag Íslands, Hið íslenska náttúrufræðafélag og Jöklarannsóknafélag Íslands hafa nýverið gefið út á diskum safn söngva og svipmynda undir heitinu Kúnstir náttúrunnar.  Eins og yfirskriftin Aldarslagur Sigurðar Þórarinssonar gefur til kynna er útgáfan helguð aldarafmæli Sigurðar sem var á síðasta ári.    Í albúminu eru tveir diskar (CD og DVD) og 48 síðna myndskrýddur bæklingur með öllum söngtextunum ásamt skýringum. Ítarlegan formála um Sigurð Þórarinsson ritar nafni hans Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur.  Í bæklingnum er einnig yfirlit um helstu viðburði í lífi Sigurðar og nokkrar línur um hann sem söngvísnasmið.   Á CD-disknum eru 32 söngvar við þýdda og frumsamda texta eftir Sigurð. Söngvarnir eru af þrennum toga: Fjórtán þeir fyrstu komu út 1982 á vínilplötunni ’Eins og gengur’ sem ekki er lengur fáanleg. Þá eru níu söngvar sem fluttir voru á 60 ára afmælishátíð Ferðafélagsins 1987 og loks níu söngvar sem hljóðritaðir voru í nóvember á síðasta ári.       Á DVD-disknum eru þrjú myndskeið: 1) heimildarmyndin ’Rauða skotthúfan’ sem fjallar í máli og myndum um vísindastörf Sigurðar. Kynnir er Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur; 2) þátturinn ’Svo endar hver sitt ævisvall’ með átta Bellmanssöngvum, og loks 3) lítill kabarett í leikstjórn Eddu Þórarinsdóttur, ’Sigurðar vísur Þórarinssonar’ með sjö lögum við texta Sigurðar.  – Kvikmyndin og þættirnir tveir voru sýndir í Sjónvarpinu á árum áður.   Í útgáfustjórn voru Gunnar Guttormsson, Halldór Ólafsson og Páll Einarsson. Með stjórninni störfuðu þau Árni Björnsson og Edda Þórarinsdóttir.  –  Um hönnun og umbrot sá Auglýsingastofa Ernst Backman, en albúmið og diskarnir voru framleiddir hjá þýska fyrirtækinu Hofa.  –  Auk félaganna sem að útgáfunni standa styrktu nokkrir aðilar útgáfuna með fjárframlögum og aðstoð í formi vinnuframlags.   Albúmið er ekki enn til sölu á almennum markaði.  Félögin sem að útgáfunni standa sjá um að dreifa albúminu til félagsmanna og áhugafólks. Verðið hjá þeim er 4 þús. kr.  – Ferðafélag Íslands tekur auk þess á móti beiðnum aðila sem vilja hafa það til sölu.

Víknaslóðir hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs

Í Ferðaáæltun Ferðafélags Íslandseru kynntar ferðir frá flestum deildum FÍ meðal annars ferðir á Víknaslóðir með Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs.  Í áætluninni er dagsetningar á þeim ferðum rangar og Fer'ðafélag Fljótsdalshéraðs hefur sent inn réttar dagsetningar

Snjókorn falla...

Vaskur hópur barna og fullorðinna lagðist í snjóhúsagerð í Heiðmörkinni fyrir nokkru og skildi þar eftir sig snjóhús og snjókalla af öllum stærðum og gerðum.

Snjókorn falla...

Snjóhús og snjókarlar af öllum stærðum og gerðum lífguðu upp á Heiðmörkina þegar Ferðafélag barnanna hafði lokið sér af í stórskemmtilegri snjóhúsaferð í fjölskyldurjóðrinu Furulundi fyrir nokkru.

Námskeið: Skyndihjálp og óhöpp í óbyggðum - Laus pláss

Námskeið: Skyndihjálp og óhöpp í óbyggðum 19., 21. og 26. febrúar Leiðbeinendur: Ævar og Örvar Aðalsteinssynir. Kennt: Kl. 18-22 í sal FÍ, Mörkinni 6. Verklegt námskeið fyrir göngufólk í skyndihjálp og viðbrögðum við óhöppum í óbyggðum. Eftir stutta upprifjun á grunnatriðum skyndihjálpar er lögð aðaláhersla á raunhæf verkefni og fræðslu og frásagnir af slysum á Íslandi og þannig reynt að æfa viðbrögð við óhöppum. Námskeiðið endar á verklegri útiæfingu þar sem björgunarfólkið þarf að fást við stórslasaða sjúklinga. Verð: 12.000/15.000. Innifalið: Kennsla og verklegar æfingar.  

Myndakvöld 20. febrúar – Náttúruperlur V-Skaftafellssýslu

Myndakvöld FÍ verður miðvikudagskvöldið 20. febrúar kl 20.00 í sal FÍ Mörkinni 6. Gísli Már Gíslason, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Vigfús Gunnar Gíslason sýna myndir úr 4 daga göngu FÍ í júlí síðastlinum um náttúruperlur í Vestur-Skaftafellssýslu. Gengið var meðfram Hólmsá, frá Hrífunesi í Skaftártungu um Álftaversafrétt og Skaftártunguheiðar, með Hómsárlónum í Strútslaug sunnan Torfajökuls. Aðgangseyrir 500 kr. Kaffi og kleinur í hléi.

Skrifstofa lokuð í dag 6. febrúar

Skrifstofa FÍ lokuð í dag miðvikudaginn 6. febrúar vegna starfsdags.