Fréttir

Ölkelduháls með FÍ og Landvernd

FÍ og Landvernd standa saman að ferð um Ölkelduháls og Reykjadal á Hvítasunnudag, 27. maí nk. Lagt verður af stað frá Mörkinni 6 kl. 9 og að loknum fræðslufundi í hótel Eldhestum verður ekið upp á Ölkelduháls og síðan gengið suður Dalafell og niður Rjúpnabrekkur.  Freysteinn Sigurðsson heldur fyrirlestur og Björn Pálsson annast leiðsögn.

Drangajökull og Reykjafjörður um Hvítasunnuhelgina

Nokkur sæti laus í skíðaferð yfir Drangajökul um Hvítasunnuna.  Þátttakendur koma á eigin bílum að Dalbæ við Unaðsdal á föstudagskvöld þar sem gist er fyrstu nóttina.  Að morgni laugardags er lagt af stað yfir Drangajökul og gengið yfir í Reykjafjörð þar sem gist verður í tvær nætur.  Aðeins er gengið með dagpoka, vistir fluttar sjóleiðina í Reykjafjörð.  Í dag 17. maí 2007 er vetrartíð á Drangajökli.  Á hájökli er mikill nýfallinn snjór og eru horfur á að heldur bæti á næstu daga. Maí hefur verið kaldur og því er óvenjumikill snjór á leiðinni ef miðað er við síðustu ár.

Fréttapóstur FÍ 15. maí.

Fréttapóstur frá Ferðafélagi Íslands 15. maí.

Árbók FÍ 2007 komin út - Húnaþing eystra

Árbók Ferðafélags Íslands 2007 er sú áttugasta í ritröðinni en bókin hefur komið út samfellt frá árinu 1928, einstakur bókaflokkur um land og náttúru. Að þessu sinni er árbókin um Húnaþing eystra og ritar hana Jón Torfason frá Torfalæk. Jón er fróður um sögu héraðsins og hefur viðað að sér heimildum úr ýmsum áttum. Árangurinn er glæsileg bók sem ekki einungis lýsir náttúrufari og staðháttum heldur er rík af sögum og sögnum.

BANF kvikmyndasýning í Háskólabíói 15. - 16. maí

Hin árlega BANFF kvikmyndasýning verður haldin í Háskólabíói 15. og 16. maí næstkomandi. Um er að ræða stuttmyndir af afrekum og ævintýrum einstaklinga sem stunda fjallamennsku, snjóbretti, fjallahjólamennsku, klifur, kajak, base jumping og fleira. Myndirnar eru eins fjölbreyttar og þær geta verið en allar eiga það sameiginlegt að fjalla um samspil einstaklingsins við náttúruna þar sem adrenalín og góð skemmtun eru sjaldan fjarri.

FÍ og Þingvallaþjóðgarður í samstarfi

Ferðafélag Íslands og Þingvallaþjóðgarður munu á næstu vikum standa saman að gönguferðum á fjöll í Þjóðgarðinum.  Gengið verður á Ármannsfell, Arnarfell, Hrafnabjörg, Leggjarbrjót, farið í hellaskoðunarferð og endað með göngu á Skjaldbreið í tilefni af því að 200 ár eru frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar.  Ferðirnar og dagsetningar verða kynntar nánar á næstunni.

Strönd og Vogar, Vatnsleysuströnd

Nafnfræðifélagið í samstarfi við FÍ efnir til gönguferðar um Strönd og Voga þriðjudaginn 15. maí nk. Ætlunin er að aka að Halakoti á Vatnsleysuströnd á eigin bílum, og er mæting þar kl. 20.  Gengið verður í Bieringstanga og fengin leiðsögn þar hjá Magnúsi Ágústssyni í Halakoti. Síðan er haldið áfram í Voga og Grænaborg  skoðuð í leiðinni og álagasaga bæjarins sögð.

Morgunganga í Viðey - myndir

Síðasta morgunganga FÍ þessa vikuna var í morgun þegar gengið var um Viðey. Veðrið var að venju sérlega gott og 24 þátttakendur nutu þess að ganga um eyjuna í morgunbirtunni. Í lok göngu var 10 þátttakakendum veitt verðlaun frá FÍ fyrir að hafa mætt í allar morgungöngurnar 5 í þessari árlegu morgungangnaviku FÍ. Sjá myndir úr Viðey

Morgungöngur - myndir, Helgufoss og Keilir

Gengið var á Keili í morgungöngu FÍ snemma morguns.  Veður var stillt. Gangan á topp Keilis tók 1.07 klst, þar af 40 mín í hrauninu að Keili.  Veitt voru verðlaun fyrir ýmsar góðar hugmyndir. Sjá myndir úr ferðinni sem og morgungöngu að Helgufossi í gærmorgun.

Menningarsjóður VISA styrkir Ferðafélag Íslands

Stjórn Menningarsjóðs VISA úthlutar nú 9 styrkjum, samtals að fjárhæð 14 milljónir króna. Þetta er í ellefta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum og hafa 79 styrkir verið veittir frá upphafi, flestir til menningarmála en nokkrir til vísinda-, mannúðar- og líknarmála. Stjórn sjóðsins ákvað að í ár skyldi verulegum hluta styrkfjárhæðarinnar varið til menningar-, líknar-og velferðarmála. Menningarsjóður Visa styrkti Ferðafélag Íslands um 3.5 milljónir króna og verða þær nýttar til merkinga, skiltagerðar og aukinnar upplýsingagjafar við skála Ferðafélagsins á Laugaveginum.